Oddeyrartangi 149131 - uppsetning á búnaði til eyðingar á áhættuvefjum frá sláturdýrum

Málsnúmer 2016010145

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 220. fundur - 27.01.2016

Erindi dagsett 18. janúar 2016 þar sem Bára Heimisdóttir f.h. Norðlenska ehf. óskar eftir heimild til uppsetningar á búnaði til eyðingar áhættuvefja úr sláturdýrum við sláturhús Norðlenska á Akureyri.
Lóð Norðlenska er á svæði sem skilgreint er fyrir matvælaiðnað.

Í deiliskipulagi "Hafnarsvæða sunnan Glerár" segir í kafla 3.7.2 M-Svæði fyrir matvælaiðnað: Sérmerking svæða fyrir matvælaiðnað felur í sér að þar og í næsta nágrenni þeirra verði ekki starfsemi sem geti haft truflandi eða skaðleg áhrif á starfsemi þeirra eða haft neikvæð áhrif á umhverfið m.t.t. þess að um matvælaframleiðslu er að ræða.

Í næsta nágrenni er önnur matvælaframleiðsla sem brennslan gæti haft neikvæð áhrif á.

Skipulagsnefnd getur því ekki samþykkt að brennsluofn verði settur upp á svæðinu.

Skipulagsnefnd - 229. fundur - 27.04.2016

Erindi dagsett 18. janúar 2016 þar sem Bára Heimisdóttir f.h. Norðlenska ehf. óskar eftir heimild til uppsetningar á búnaði til eyðingar áhættuvefja úr sláturdýrum við sláturhús Norðlenska á Akureyri.

Skipulagsnefnd synjaði erindinu á fundi sínum 27. janúar 2016.

Nýtt erindi barst 5. apríl 2016 þar sem Ágúst Torfi Hauksson f.h. Norðlenska óskar eftir að skipulagsnefnd endurskoði afstöðu sína. Óskað er eftir að Norðlenska fái leyfi til starfrækslu brennsluofns út árið 2019 og að einungis verði brenndur úrgangur í flokki 1 og 2 sem eru um 100 tonn á ári.
Meirihluti skipulagsnefndar frestar afgreiðslu og felur formanni nefndarinnar og skipulagsstjóra að vinna að lausn í samræmi við Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi 2015 - 2026.

Tryggvi Gunnarsson S-lista greiðir atkvæði gegn afgreiðslunni og óskar bókað að hann vilji að erindinu verði hafnað í samræmi við afgreiðslu skipulagsnefndar 27. janúar 2016 á sambærilegu erindi.

Skipulagsnefnd - 238. fundur - 06.07.2016

Fyrir liggur ákvöðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu á búnaði til eyðingar áhættuvefjum, dagsett 30. júní 2016. Ekki er talið líklegt að fyrirhuguð uppsetning á búnaði hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Tölvupóstur frá Norðlenska barst 1. júlí 2016 þar sem óskað var eftir upplýsingum frá Akureyrarbæ hvort vænta megi einhverra breytinga á afstöðu og ákvörðun skipulagsnefndar varðandi málið.
Skipulagsnefnd felur bæjarstjóra og skipulagsstjóra að vinna að lausn í samvinnu við önnur sveitarfélög á Norðurlandi og í samræmi við Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi 2015 - 2026.Þar sem vinna að þeirri lausn tekur einhvern tíma er ekki gerð athugasemd við að starfsleyfi verði veitt í eitt ár vegna umrædds brennsluofns til að brenna áhættuvefjum eingöngu úr flokki 1 og 2 á athafnalóð Norðlenska á Oddeyri. Farið er fram á að á þeim tíma verði rækilega haft af hendi Heilbrigðiseftirlit Norðurlands Eystra eftirlit með notkun ofnsins og gerðar þær mælingar sem þarf til að fá fullvissu um að starfræksla hans standist kröfur um loft-, lyktar- og hávaðamengun. Komi í ljós að ofninn standist ekki slíkar kröfur er farið fram á að starfsleyfið verði skilyrt því ákvæði að stöðva megi notkun hans þá þegar. Að ári liðnu verði starfsleyfið ekki framlengt nema að undangenginni umsögn skipulagsnefndar og ef ekki verða aðrar samræmdar lausnir um brennslu áhættuvefja í flokki 1 og 2 komnar fram á Norðurlandi.

Helgi Snæbjarnarson vék af fundi kl. 10:00.

Skipulagsnefnd - 240. fundur - 24.08.2016

Bæjarráð vísaði 2. lið úr fundargerð Hverfisnefndar Oddeyrar til skipulagsdeildar. Brennsluofn á athafnasvæði Norðlenska á Oddeyrartanga.
Skipulagsnefnd getur tekið undir áhyggjur hverfisnefndar og var fyrri bókun nefndarinnar 8. júlí 2016 til samræmis við það, að veita einungis leyfi til eins árs. Að þeim tíma loknum verður leyfið endurskoðað á grundvelli reynslu ef sótt verður um endurnýjun. Jafnframt verður áfram leitað leiða til að brennsla sem þessi sé reist og rekin í samvinnu sláturleyfishafa og sveitarfélaga á svæðinu en ekki hjá hverjum leyfishafa fyrir sig.