Skipulagsnefnd

240. fundur 24. ágúst 2016 kl. 08:00 - 11:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Ólína Freysteinsdóttir
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurjón Jóhannesson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Leifur Þorsteinsson staðgengill skipulagsstjóra
  • Anna Bragadóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Stefanía G Sigmundsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Bjarki Jóhannesson skipulagsstjóri
Dagskrá

1.Ljósvistarskipulag Akureyrar

Málsnúmer 2016080002Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. júlí 2016 frá Víkingi Guðmundssyni þar sem hann fyrir hönd framkvæmdadeildar leggur fram skýrslu um Ljósvistarskipulag Akureyrar sem framkvæmdadeild hefur unnið að með verkfræðistofunni Verkís. Á fundinn komu Víkingur Guðmundsson og Helgi Már Pálsson frá framkvæmdadeild og Kjartan Jónsson frá Verkís og kynntu skýrsluna.

Óskað er eftir umfjöllun skipulagsnefndar um skipulagið. Fulltrúi Verkís mætti á fundinn og kynnti.
Skipulagsnefnd þakkar fulltrúa Verkís fyrir kynninguna.

2.Glerárgata og Þingvallastræti - þrengingar til reynslu

Málsnúmer 2015110156Vakta málsnúmer

Erindi frá framkvæmdadeild þar sem óskað er umsagnar á tillögum að þrengingu Glerárgötu og Þingvallastrætis. Víkingur Guðmundsson hjá framkvæmdadeild kynnti tillögurnar.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við tillögurnar og að þrengingarnar verði gerðar samtímis til reynslu í eitt ár en minnir á að hafa þurfi í huga fyrirætlanir vegagerðarinnar um umferðarljós á gatnamótum Gránufélagsgötu og Glerárgötu.

Sigurjón Jóhannesson D-lista óskar bókað:

Í breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi miðbæjar, sem samþykkt var í bæjarstjórn 6. maí 2014, er gert ráð fyrir þrengingu og tilfærslu á núverandi legu Glerárgötu í gegnum miðbæinn. Í aðdraganda kosninga til bæjarstjórnar vorið 2014 lýsti framboð D-lista andstöðu við þessar hugmyndir eins og þær lágu fyrir. Sú afstaða hefur ekki breyst. Ef meirihluti bæjarstjórnar hefur enn áhuga á að ráðast í þessar breytingar þá er skynsamlegra að þrengja götuna tímabundið til reynslu, eins og hér er lagt til, áður en farið yrði í varanlegar breytingar og kostnaðarsama tilfærslu á götustæði, að hluta á milli Strandgötu og Kaupvangsstrætis. Þannig verði nýrra raungagna um umferðaþunga og umferðaöryggi aflað.

3.Austurbrú 6-8 - umsókn um byggingarleyfi fyrir fjölbýli með bílakjallara

Málsnúmer 2016070042Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. júlí 2016 þar sem Ingólfur Guðmundsson fyrir hönd Furuvalla 7 ehf.,

kt. 530212-0170, sækir um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu við Austurbrú 6-8. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Loga Má Einarsson. Ingólfur Guðmundsson og Logi Már Einarsson frá Kollgátu ehf., mættu á fundinn og kynntu hönnun húsanna.
Skipulagsnefnd þakkar kynninguna, tekur jákvætt í erindið á grundvelli kynningar og vísar því til afgreiðslu skipulagsstjóra.

Helgi Snæbjarnarson L-lista tók ekki þátt í umræðum og afgreiðslu málsins.

4.Austurbrú 2-12 - umsókn um hækkun á nýtingarhlutfalli

Málsnúmer 2016080057Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. ágúst 2016 þar sem Sigmundur Ófeigsson fyrir hönd Furuvalla 7 ehf., kt. 530212-0170, óskar eftir leyfi til að hækka nýtingarhlutfall á lóðunum við Austurbrú númer 2-4 úr 1,800 í 1,955, númer 6-8 úr 1,800 í 1,920 og númer 10-12 úr 1,800 í 1,985.


Helgi Snæbjarnarson L-lista lýsti sig vanhæfan í málinu og var það samþykkt. Vék hann af fundi við umfjöllun og afgreiðslu málsins.
Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við 3. málgrein 44. greinar skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem breytingin hefur ekki áhrif á stærð eða rúmmál hússins og hefur því ekki áhrif á aðra en umsækjendur.

5.Miðbær - deiliskipulagsbreyting vegna fjölgunar lóða og breytingu á Torfunefsbryggju

Málsnúmer 2016010086Vakta málsnúmer

Tillagan var send til umsagnar og auglýst með umsagnarfresti til 6. júlí 2016.

Þrjár umsagnir bárust:

1. Hafnarsamlag Norðurlands, dagsett 6. júní 2016.

a) Óskað er eftir því að lóðin Torfunef 1 verði færð vestar um 10-15 metra, þar sem húsið geti hamlað almennri hafnarþjónustu ef húsið er nær bryggju.

b) Óskað er eftir því að deiliskipulagið nái 7 metra austur að innkeyrslu af Drottningarbraut og inn á bryggjuna.

2. Minjastofnun Íslands, dagsett 21. júní 2016.

a) Ekki er gerð athugasemd við tillöguna en vakin er athygli á því að ef fornminjar finnast skal stöðva framkvæmdir.

3) Vegagerðin, dagsett 6. júlí 2016.

Engin athugasemd er gerð.

Tvær athugasemdir bárust:

1. Jóhannes Árnason, dagsett 2. júní 2016.

a) Leggur til að leigubílar og rútur geti ekið inn á lóð Hofs frá Glerárgötu.

b) Laga þyrfti gönguleið frá Strandgötu að Hofi þar sem gestir Hofs leggja í Strandgötu.

c) Kveða þyrfti á um frágang yfirborðs á lóð Hofs fyrir greiðari gönguleiðir og minni hættur.

d) Með grjótgarði er verið að taka sjóinn frá fólkinu, gönguleiðin ætti frekar að vera á brú eða að grjótgarðurinn bútaður meira niður þar sem sjórinn kæmist óhindraður undir.

e) Ef Glerárgata yrði mjókkuð gætu fengist mörg bílastæði. Bilastæðahús gæti verið undir Ráðhústorgi og við Gilsbakkaveg.

2) Reginn hf., dagsett 6. júlí 2016.

a) Lónið sem myndast milli Strandgötu 14 og nýrrar gönguleiðar mætti vera stærra.

b) Hönnun gönguleiðarinnar mætti vera opnari og náttúrulegri.

Lögð fram tillaga skipulagsstjóra að svari við athugasemdum.
Afgreiðslu frestað.

6.Gleráreyrar 6-8 - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2015070024Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. júlí 2015 þar sem Egill Guðmundsson fyrir hönd Eikar fasteignafélags hf., kt. 590902-3730, óskar eftir samstarfi við Akureyrarbæ vegna uppbyggingar á lóð um nr. 6-8 við Gleráreyrar.

Skipulagsnefnd fól formanni skipulagsnefndar og skipulagsstjóra að ræða við umsækjanda um breytta notkun á svæðinu á fundi sínum 8. júlí og 28. október 2015. Skipulagsnefnd frestaði erindinu á fundi 10. mars 2016 og vísaði til gerðar Aðalskipulags Akureyrar 2018-2030. Umsækjandi óskar eftir að gerð verði breyting á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 sem verði tekin fyrr til afgreiðslu.
Skipulagsnefnd telur nauðsynlegt að skoða erindið í samhengi við Aðalskipulagið í heild sinni og ítrekar því fyrri bókun frá 9. mars 2016.

7.Frostagata 6a - umsókn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2016070112Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 25. júlí 2016 þar sem Anton Örn Brynjarsson fyrir hönd Vélsmiðju Steindórs kt. 690269-3769, sækir um deiliskipulagsbreytingu fyrir Frostagötu 6a. Meðfylgjandi er teikning móttekin 25. júlí 2016.
Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið og heimilar umsækjanda að vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við erindið.

8.Rangárvellir - umsókn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2016070114Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 25. júlí 2016 þar sem Anton Örn Brynjarsson fyrir hönd Norðurorku hf.,

kt. 550978-0169, sækir um deiliskipulagsbreytingu fyrir Rangárvelli. Meðfylgjandi er tillaga að deiliskipulagsbreytingu dagsett 12. ágúst 2016.
Skipulagsnefnd samþykkir að deiliskipulagstillagan verði grenndarkynnt samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Edward Hákon Huijens V-lista tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

9.Hrísey, deiliskipulag hafnarsvæðis

Málsnúmer 2016020053Vakta málsnúmer

Skipulagslýsingin var auglýst dags. 13. júlí 2016. Frestur til að skila ábendingum var til 15. ágúst 2016.

Sjö umsagnir bárust:

1) Hafnasamlag Norðurlands, dagsett 5. ágúst 2016.

Stjórn Hafnasamlagsins fagnar deiliskipulagsvinnunni og gerir engar athugasemdir.

2) Minjastofnun Íslands, dagsett 28. júlí 2016.

Ekki er gerð athugasemd við fyrirhugaða skipulagsvinnu.

3) Norðurorka, dagsett 2. ágúst 2016.

Tvær útrásir fráveitu eru á svæðinu en þær þarf að framlengja og koma á meira dýpi. Gera þarf ráð fyrir lítilli hreinsistöð fyrir fyrstastigs hreinsun á skólpi.

4) Skipulagsstofnun, dagsett 21. júlí 2016.

Engar athugasemdir eru gerðar.

5) Vegagerðin, dagsett 8. ágúst 2016.

Engar athugasemdir eru gerðar.

6) Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, dagsett 11. ágúst 2016.

Engar athugasemdir eru gerðar en athygli er vakin á mikilvægi þess að gera grein fyrir fráveitumannvirkjum.

7) Hverfisráð Hríseyjar, dagsett 18. ágúst 2016.

Hverfisráð er sammála því að það eigi að afleggja lóðirnar þrjár austan við ferjubryggjuna sem skilgreindar eru í deiliskipulagi hafnarsvæðis í Hrísey, staðfest 8. október 1996, og að það eigi að færa veginn að Salthúsinu. Einnig er hverfisráð sammála því að það eigi að búa til almennings- og skemmtigarð þar. Hvað varðar gönguleiðir á svæðinu, er hverfisráð hlynnt því að nota tillögu sem Ferðamálafélagið lét teikna upp fyrir nokkrum árum, enda er m.a. kostur við hana að um beina gönguleið að ferjunni er að ræða.

Þorgeir Jónsson og Pétur Ásgeir Steinþórsson vilja auk þess koma á framfæri að það ætti að skoða bílastæðamál við ferjuna og skipuleggja bílastæðin betur.

Bendir Þorgeir á að það vanti stefnu fyrir Hrísey varðandi umferð almennt, svo sem hvort Hrísey eigi að vera bíllaus eða ekki.

Skipulagsnefnd vísar umsögnum til vinnslu deilskipulagins.

10.Melgerðisás - deiliskipulag

Málsnúmer 2015050023Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrstu drög að deiliskipulagi Melgerðisáss. Drögin eru unnin af Gísla Kristinssyni arkitekt, dagsett 24. ágúst 2016.
Afgreiðslu frestað.

11.Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 - Melgerðisás

Málsnúmer 2016060068Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að skipulagslýsingu dagsett 19. ágúst 2016 vegna breytingar á aðalskipulagi vegna þéttingar byggðar við Melgerðisás. Tillagan er unnin af Árna Ólafssyni hjá Teiknistofu Gylfa Guðjónssonar og félaga.
Skipulagsnefnd samþykkir að leita umsagnar Skipulagsstofnunar á skipulagslýsingunni og kynna hana fyrir almenningi í samræmi við 30. grein skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsnefnd gerir eftirfarandi tillögu til bæjarstjórnar um bókun: "Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir að leita umsagnar Skipulagsstofnunar um skipulagslýsingu aðalskipulagsbreytingar fyrir Melgerðisás dagsettri 19. ágúst 2016 og kynna fyrir almenningi í samræmi við 30. grein skipulagslaga nr. 123/2010".

12.Glerárvirkjun II - gangstígur verður aðkomuvegur - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2016080067Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 18. ágúst 2016 þar sem Bergur Steingrímsson fyrir hönd Fallorku ehf.,

kt. 600302-4180, óskar eftir heimild til að gera tillögu að breytingu á deiliskipulagi Glerárvirkunar II. Á fundinn komu Andri Teitsson framkvæmdastjóri Fallorku, Franz Árnason verkefnisstjóri og Bergur Steingrímsson frá Eflu og kynntu málið.
Skipulagsnefnd þakkar fyrir kynninguna.

Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem verði auglýst samkvæmt 43. grein skipulagslaga nr. 123/2010.

13.Akstursíþrótta- og skotsvæði - stígur á skotsvæði - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2016080006Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 4. ágúst 2016 þar sem Bergur Steingrímsson hjá Eflu fyrir hönd Fallorku ehf., kt. 600302-4180, óskar eftir breytingu á deiliskipulagi akstursíþrótta- og skotsvæðis á Glerárdal. Skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda þann 10. ágúst 2016 að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi.

Tillagan er dagsett 24. ágúst 2016 og unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi ehf. Samþykki Skotfélags Akureyrar liggur fyrir dagsett 17. ágúst 2016.
Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða samþykkir skipulagsnefnd að grenndarkynna erindið.

Þar sem samþykki nágranna liggur fyrir telst grenndarkynningu lokið. Skipulagsnefnd samþykkir erindið og leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og málinu lokið samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

14.Glerárvirkjun II - framkvæmdaleyfi vegna virkjunar

Málsnúmer 2015090001Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 18. ágúst 2016 þar sem Bergur Steingrímsson fyrir hönd Fallorku ehf., kt. 600302-4180, sækir um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu þrýstilagnar frá væntanlegu stöðvarhúsi 1500 metra í átt að stíflu vegna Glerárvirkjunar II.
Skipulagsnefnd samþykkir framkvæmdaleyfið, sem samræmast gildandi aðal- og deiliskipulagi. Skipulagsnefnd minnir á að framkvæmdir á skipulagssvæðinu eru við svæði á náttúruminjaskrá og leggur því ríka áherslu á góða umgengni við allar framkvæmdir og fyrirmyndar frágang alls þess sem raskað er. Við sáningu plantna í sár sem myndast skal einungis notast við tegundir sem er að finna á staðnum.

15.Kristjánshagi 2 og Davíðshagi 4 - umsókn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2016080073Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 19. ágúst 2016 þar sem Sigurður Sigurðsson fyrir hönd SS byggis ehf,

kt. 620687-2519, sækir um breytingu á deiliskipulagi Kristjánshaga 2 og Davíðshaga 4. Meðfylgjandi er tillaga unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi, dagsett 24. ágúst 2016 og samþykki nágranna.
Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða samþykkir skipulagsnefnd að grenndarkynna erindið.

Þar sem samþykki nágranna liggur fyrir telst grenndarkynningu lokið. Skipulagsnefnd samþykkir erindið og leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og málinu lokið samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

16.Eyjafjarðarsveit, Hvammur - efnistökusvæði, beiðni um umsögn um skipulags- og matslýsingu

Málsnúmer 2015060040Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 16. ágúst 2016 frá skipulagsfulltrúa Eyjafjarðarsveitar þar sem óskað er eftir umsögn Akureyrarkaupstaðar á tillögu að deiliskipulagi efnistökusvæðis í landi Hvamms í Eyjafjarðarsveit.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við erindið, en leggur áherslu á að tryggt verði að ryk- og hávaðamengun af námuvinnslu og efnisflutningum hafi ekki neikvæð áhrif á útivistarsvæðið í Kjarnaskógi.

Jafnframt hvetur skipulagsnefnd til frekari samvinnu um efnistöku á Eyjafjarðarsvæðinu.

17.Oddeyrartangi 149131 - uppsetning á búnaði til eyðingar á áhættuvefjum frá sláturdýrum

Málsnúmer 2016010145Vakta málsnúmer

Bæjarráð vísaði 2. lið úr fundargerð Hverfisnefndar Oddeyrar til skipulagsdeildar. Brennsluofn á athafnasvæði Norðlenska á Oddeyrartanga.
Skipulagsnefnd getur tekið undir áhyggjur hverfisnefndar og var fyrri bókun nefndarinnar 8. júlí 2016 til samræmis við það, að veita einungis leyfi til eins árs. Að þeim tíma loknum verður leyfið endurskoðað á grundvelli reynslu ef sótt verður um endurnýjun. Jafnframt verður áfram leitað leiða til að brennsla sem þessi sé reist og rekin í samvinnu sláturleyfishafa og sveitarfélaga á svæðinu en ekki hjá hverjum leyfishafa fyrir sig.

18.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2016

Málsnúmer 2016010020Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 11. ágúst 2016. Lögð var fram fundargerð 596. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 13 liðum.
Lagt fram til kynningar.

19.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2016

Málsnúmer 2016010020Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 18. ágúst 2016. Lögð var fram fundargerð 597. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 7 liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:00.