Bæjarstjórn

3429. fundur 20. febrúar 2018 kl. 16:00 - 18:12 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar
  • Ingibjörg Ólöf Isaksen
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Dagbjört Elín Pálsdóttir
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Sigríður Huld Jónsdóttir
  • Silja Dögg Baldursdóttir
  • Baldvin Valdemarsson
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Gunnar Gíslason
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson
Starfsmenn
  • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
  • Dagný Magnea Harðardóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Dagný Magnea Harðardóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar
Dagskrá
Jón Þorvaldur Heiðarsson Æ-lista mætti í forföllum Prebens Jóns Péturssonar.

1.Bæjarstjórn áætlun um fundi 2018

Málsnúmer 2017050158Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um breytingu á áætlun um fundi bæjarstjórnar á árinu 2018.

Breytingin felst í því að áætlaður fundur bæjarstjórnar þriðjudaginn 19. júní er færður fram til þriðjudagsins 12. júní og bætt er við fundi þriðjudaginn 26. júní.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu um breytingu á áætlun um fundi bæjarstjórnar á árinu 2018 með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Torfunefsbryggja - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2017110379Vakta málsnúmer

8. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 14. febrúar 2018:

Erindi dagsett 23. nóvember 2017 þar sem Ómar Ívarsson fyrir hönd Hafnasamlags Norðurlands, kt. 650371-2919, sækir um heimild til að leggja fram breytt deiliskipulag fyrir miðbæ Akureyrar. Breytingin felst í stækkun Torfunefsbryggju. Breytt erindi var lagt fram í skipulagsráði 10. janúar 2018. Skipulagsráð heimilaði umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi.

Tillagan er dagsett 14. febrúar 2018 og unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi.

Skipulagsráð leggur áherslu á að í deiliskipulaginu skuli vera ákvæði um að almennt skuli vera fullt aðgengi að bryggjunni. Lokunum skal beitt í undantekningatilfellum.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan þannig breytt verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Edward Hákon Huibens V-lista óskar bókað:

Eðlilegt væri að meta umhverfisáhrif af fyrirhugaðri hafnarframkvæmd. Ekki er það síst til að meta umfang loftmengunar af skemmtiferðaskipum sem fyrirhugað er að nýti viðlegukantinn. Helst verða það minni skip (svo kölluð könnuðarskip) sem vill svo til að eru jafnan meðal þeirra elstu sem sækja Ísland heim. Vegna aldurs og stærðar eru sístar líkur á mengunarvörnum um borð og mengun þannig hlutfallslega verst frá þessum skipum. Erlendis eru staðfestar mælingar á t.d. nituroxíð (NOx) yfir heilsuverndarmörkum í útblæstri skipa og engin ástæða til að ætla að málum sé öðruvísi farið hér við land. Svo kölluð könnuðarskip eru einnig líkleg til að dveljast lengur í höfn, jafnvel eina til tvær nætur og því staðbundin mengun enn meiri. Þetta verður að teljast sérstakt áhyggjuefni vegna nálægðar byggðar við Austurbrú og vegna fyrirhugaðrar byggðar á Skipagötureit. Þessu verður að gera ítarlega grein fyrir og þá samhliða hvaða mótvægisaðgerða skal grípa til, s.s. viðvarandi mælinga og rafmagnstengingar við land. Auk þessa þarf að gera vandlega grein fyrir hvernig móttöku úrgangs verður háttað á þessum viðlegukanti.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 10 samhljóða atkvæðum.

Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista sat hjá við afgreiðslu.


Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista óskar bókað að hún taki undir svohljóðandi bókun Edwards Hákonar Huibens V-lista í skipulagsráði:

Eðlilegt væri að meta umhverfisáhrif af fyrirhugaðri hafnarframkvæmd. Ekki er það síst til að meta umfang loftmengunar af skemmtiferðaskipum sem fyrirhugað er að nýti viðlegukantinn. Helst verða það minni skip (svo kölluð könnuðarskip) sem vill svo til að eru jafnan meðal þeirra elstu sem sækja Ísland heim. Vegna aldurs og stærðar eru sístar líkur á mengunarvörnum um borð og mengun þannig hlutfallslega verst frá þessum skipum. Erlendis eru staðfestar mælingar á t.d. nituroxíð (NOx) yfir heilsuverndarmörkum í útblæstri skipa og engin ástæða til að ætla að málum sé öðruvísi farið hér við land. Svo kölluð könnuðarskip eru einnig líkleg til að dveljast lengur í höfn, jafnvel eina til tvær nætur og því staðbundin mengun enn meiri. Þetta verður að teljast sérstakt áhyggjuefni vegna nálægðar byggðar við Austurbrú og vegna fyrirhugaðrar byggðar á Skipagötureit. Þessu verður að gera ítarlega grein fyrir og þá samhliða hvaða mótvægisaðgerða skal grípa til, s.s. viðvarandi mælinga og rafmagnstengingar við land. Auk þessa þarf að gera vandlega grein fyrir hvernig móttöku úrgangs verður háttað á þessum viðlegukanti.

3.Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 - dælustöð við Sjafnargötu

Málsnúmer 2018010429Vakta málsnúmer

11. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 14. febrúar 2018:

Lögð er fram tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 til að gert verði ráð fyrir dælustöð fráveitu sem mun þjónusta athafnasvæðið við Sjafnargötu.

Skipulagsráð samþykkir að tillagan verði afgreidd sem óveruleg breyting á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem hún er ekki líkleg til að hafa verulegar breytingar á landnotkun í för með sér, ekki líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða hafa áhrif á stór svæði. Fyrir liggur að afgreiða Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 á sama hátt í samræmi við innkomna athugasemd og tillögu að svari við henni.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að þar sem hér er um óverulega breytingu á aðalskipulagi að ræða, verði aðalskipulagsbreytingin samþykkt og afgreidd samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sviðsstjóra skipulagssviðs verði falið að senda erindið til Skipulagsstofnunar.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Álagning gjalda - fasteignagjöld 2018 - endurskoðun á reglum um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega

Málsnúmer 2017110123Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð bæjarráðs dagsett 15. febrúar 2018:

Tekið fyrir að nýju, áður á dagskrá bæjarráðs 8. febrúar sl. en þá frestaði bæjarráð afgreiðslu.

Lögð var fram tillaga að endurskoðuðum reglum um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2018.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu að breytingum að reglum um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2018 og vísar henni til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að breytingum á reglum um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2018 með 11 samhljóða atkvæðum.

5.Umhverfismál - samgöngusamningar

Málsnúmer 2018020301Vakta málsnúmer

Bæjarfulltrúi Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista óskaði eftir umræðu um umhverfismál - samgöngusamningar.
Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun:

Bæjarstjórn samþykkir að bjóða starfsfólki Akureyrarbæjar upp á að gera samgöngusamninga og felur bæjarráði að útfæra slíka samninga.


Bókunin var borin upp og felld með 10 atkvæðum gegn atkvæði Sóleyjar Bjarkar Stefánsdóttur V-lista.


Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:

Þegar hefur verið samþykkt hjá frístundaráði að stofna stýrihóp um verkefnið heilsueflandi samfélag. Bæjarstjórn telur eðlilegast að umræða um samgöngustyrki fyrir bæjarbúa og eða starfsfólk Akureyrarbæjar sé m.a. hlutverk stýrhóps um heilsueflandi samfélag og verði tekið fyrir þar.

Bókunin var borin upp og samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

6.Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030

Málsnúmer 2015110092Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð skipulagsráðs dagsett 14. febrúar 2018:

Athugasemdir og svör við auglýstri tillögu að Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 tekin fyrir að nýju þar sem auka þarf við svör við athugasemdum Isavia. Lögð fram tillaga sviðsstjóra að svari.

Skipulagsráð samþykkir tillögu sviðsstjóra að breyttu svari við athugasemd Isavia og vísar samantekt athugasemda og svörum við þeim þannig breyttum til bæjarstjórnar.

Akureyrarbær gerir þann fyrirvara að samið verði við Isavia um kostnaðarskiptingu vegna breytinga á göngu- og reiðleið áður en til framkvæmda kemur.
Lögð fram tillaga að breytingu að svari vegna athugasemdar Isavia nr. 3 (bls. 9 í greinargerð:

Til þess að Akureyrarflugvöllur uppfylli kröfur sem alþjóðlegur flugvöllur þarf að setja upp ILS búnað fyrir blindflug. Hluti þess búnaðar kemur austan suðurenda flugbrautar, og þarf að girða þann hluta af og framlengja girðingu við suðurenda flugbrautarinnar til suðurs út að vesturkvísl Eyjafjarðarár. Það lokar núverandi göngu- og reiðstíg, sem þá verður að færa. Hinsvegar opnast tækifæri við uppbyggingu nýrrar leiðar samhliða lagningu jarðstrengs yfir vesturkvísl Eyjafjarðarár.

Bæjarstjórn samþykkir að breyta aðalskipulagsuppdrættinum á þá leið að lega göngu- og reiðstígs verði breytt á skipulagsuppdrætti til samræmis við tillögu að legu jarðstrengs.

Tillagan var borin upp og samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.


Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum tillögu skipulagsráðs, með áður samþykktri breytingu að svari vegna athugasemdar Isavia nr. 3 (bls. 9 í greinargerð, að svörum við athugasemdum, sem fram koma í skjalinu "Athugasemdir og úrvinnsla við auglýst aðalskipulag flokkað.pdf" og felur skipulagssviði að ganga frá greinargerð og uppdráttum til samræmis við svörin.


Bæjarfulltrúar D-lista óska bókað:

Bæjarfulltrúar D-lista samþykkja ekki útfærslu á þéttingu byggðar í Kotárborgum eins og hún er sett fram í tillögu að svörum við athugasemdum við tillögu að Aðalskipulagi 2018-2030. Það er sjálfsagt að gera ráð fyrir byggð á Pálmholtsreitnum og í beinni línu norður að verndarsvæði Glerár. Við teljum þörf á frekari umræðu um uppyggingu svæðisins og þróun þess áður en meira svæði er lagt undir sem byggingarland.

7.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2010090095Vakta málsnúmer

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:


Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 1., 8. og 15. febrúar 2018
Bæjarráð 8. og 15. febrúar 2018
Frístundaráð 1. og 15. febrúar 2018
Fræðsluráð 6. febrúar 2018
Skipulagsráð 7. og 14. febrúar 2018
Stjórn Akureyrarstofu 8. febrúar 2018
Umhverfis- og mannvirkjaráð 2. febrúar 2018
Velferðarráð 24. janúar og 7. febrúar 2018

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar / www.akureyri.is /
Stjórnkerfið / Fundargerðir

Fundi slitið - kl. 18:12.