Umhverfisátak í Kjarnaskógi og á Hömrum

Undanfarin þrjú ár hefur Akureyrarbær, í góðu samstarfi við Skógræktarfélag Eyfirðinga, staðið fyrir miklum framkvæmdum í Kjarnaskógi sem miða allar að því að auka aðgengi og bæta afþreyingamöguleika bæjarbúa og gesta. Kjarnaskógur er í dag orðin eitt allra besta útivistarsvæði landsins þar sem allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi til útivistar- og afþreyingar.

Strandblaksvellirnir í Kjarnaskógi hafa notið mikilla vinsælda og eru nú þar fjórir löglegir keppnisvellir. Vellirnir eru í mikilli notkun og er sú regla viðhöfð að bóka þarf vellina. Það er hægt að gera á fésbókarsíðunni Strandblak Kjarnaskógur.

Birkivöllur er nýtt leiksvæði suður af strandblaksvöllunum og er þar fjöldi skemmtilegra leiktækja. Við Birkivöll hefur einnig verið sett upp grillhús og er hann því orðinn afar skemmtilegt afþreyingarsvæði fyrir fjölskyldur.

Nýtt salernishús var reist við bílastæði neðan við strandblaksvellina. Salernishúsið smíðaði Þverárgólf ehf. og er það hið glæsilegasta. Suður af salernishúsinu er nýr ærslabelgur sem hefur vakið mikla kátínu og gleði hjá yngri kynslóðinni. Á sömu slóðum eru borðtennisborð auk þess sem framkvæmdir eru hafnar við að setja upp minigolfvöll.

Steinagerðisvöllur var endurgerður, auk þess sem unnið var að ýmsum öðrum framkvæmdum á svæðinu s.s. stígagerð og merkingum.

Á næstunni verður búinn til 9 holu frisbígolfvöllur sem verður framlenging á vellinum sem er við tjaldsvæðið á Hömrum og sem mun þá verða 18 holur alls.

Hamrar sem liggja við Kjarnaskóg eru orðnir að frábærri útivistarparadís með óþrjótandi möguleikum og er nýbúið að koma þar fyrir bílabraut sem áður var í sundlaugargarðinum við Sundlaug Akureyrar og hefur ávallt notið mikilla vinsælda.

Akureyringar og gestir eru hvattir til að nýta sér alla þá möguleika sem í boði eru í bænum til útivistar- og afþreyingar.

Smellið á myndirnar til að skoða þær nánar og fletta á milli þeirra.

     

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan