Tökum Leif Arnar með og minnkum matarsóun

Leifur Arnar er verkefni á vegum Vistorku í samstarfi við Akureyrarbæ sem snýst um að auka vitund um loftslags-, umhverfis- og auðlindaáhrif matarsóunar og umbúða fyrir matvæli.

Markmiðið er annars vegar að minnka matar- og umbúðasóun á veitingastöðum með því að hvetja fólk til að taka með sér matinn (leifarnar) í samræmdum umbúðum sem mega fara í moltugerð. Hins vegar er stefnan að koma upp viðurkenningakerfi sem hvetur veitingastaði til að vinna samkvæmt loftslagsþrennunni; minnka matarsóun (Leifur Arnar), skila notaðri steikingarolíu í lífdísilgerð (Orkey) og tryggja að allur lífrænn úrgangur fari í jarðgerð (Molta). 

Leifur Arnar leit fyrst dagsins ljós fyrir nokkrum árum síðan í tilraunaskyni en nú er ætlunin að innleiða verkefnið á markvissan hátt á Akureyri sem síðan mætti útvíkka á landsvísu. Vistorka leitar því eftir formlegu samstarfi við veitinga- og matsölustaði á Akureyri um innleiðingu kerfisins. Nú þegar hafa nokkur fyrirtæki samþykkt að taka þátt, Majó, Orðakaffi og Backpackers, og er líklegt að fleiri bætist í hópinn á næstunni.

Margir matvælaframleiðendur, verslanir og skyndibitastaðir hafa fikrað sig í átt að umhverfisvænni umbúðum og jafnvel boðið viðskiptavinum að koma með eigin ílát. Fyrir slík fyrirtæki snýr þátttaka í verkefninu meira að samræmdum merkingum og skuldbindingu til að skila allri steikingarolíu og lífrænum úrgangi í réttan farveg. Áhugasömum samstarfsaðilum er bent á að hafa samband við Eyrúnu Gígju Káradóttur, verkefnastjóra hjá Vistorku, í netfanginu eyrungigja@vistorka.is 

Nýtnivikan stendur yfir 20.-28. nóvember. Átakinu er ætlað að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að draga úr magni úrgangs, minnka sóun, endurvinna og nýta betur. Þema vikunnar í ár eru hringrásarsamfélög. Nánar hér.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan