Yfirbygging Töfrateppisins í Hlíðarfjalli skemmdist talsvert í miklum vindhviðum aðfararnótt þriðjudagsins 21. nóvember.
Gefið hafði verið út af framleiðanda að yfirbyggingin gæti staðið af sér vind upp á 46 m/s og vindhviður upp á 51 m/s. Það reyndist hins vegar ekki alls kostar rétt því umrædda nótt náði vindurinn mest 39 m/s en stóð yfir í rúmar 4 klukkustundir. Talað er um fárviðri þegar vindur nær meiru en 32,7 m/s.
Vottað hafði verið af tæknimanni frá framleiðandanum Sunkid, sem er stærsti framleiðandi töfrateppa í heiminum, að yfirbyggingin væri rétt sett upp og ætti að þola fárviðri. Hins vegar urðu skemmdir plexyglerjum (polycarbonate) í yfirbyggingunni þessa nótt.
Á fundi með fulltrúum Sunkid föstudaginn 24. nóvember lýstu þeir undrun sinni á þessum skemmdum en íslenskt veðurfar lætur ekki að sér hæða. Sú lausn var fundin að setja þverbita á milli allra boganna í fyrirbyggingunni sem styðja við glerið og koma þannig í veg fyrir að það geti svignað og gefið sig í fárviðri. Sunkid hefur notað þessa lausn á svæðum þar sem mikil snjósöfnun verður ofan á slíkar yfirbyggingar og hafa þverbitarnir gefið góða raun.
Sunkid bætir tjónið að fullu og enginn kostnaður fellur á Akureyrarbæ vegna skemmdanna.
Vonast er til þess að hægt verði að opna Töfrateppið fyrir skíðaiðkendum fljótlega eftir að skíðasvæðið í Hlíðarfjalli verður opnað upp úr miðjum desember.