Tónlistarhátíðin Mysingur er einn af viðburðum Listasumars í ár. Mynd: Andrés Rein Baldursson, 2022.
Listasumar hefst miðvikdaginn 7. júní og stendur til sunnudagsins 23. júlí. Hátíðin hefur verið haldin með nokkrum hléum frá árinu 1992, stækkað jafnt og þétt, og um leið skipað sér veglegan sess í viðburðaflóru landsins.
Það er að þessu sinni sumarlistamaður Akureyrar 2023, Egill Andrason, sem hleypir Listasumri af stokkunum á þaki inngangs Listasafnsins 7. júní kl. 15.
Hátíðin mun einblína á listasmiðjur og námskeið fyrir börn og ungmenni í júnímánuði og hefst fyrsta námskeiðið strax 7. júní, útihjólabrettanámskeið með Eika Helga og félögum í Braggaparkinu. Í kjölfarið fylgja fjölbreyttar smiðjur af ýmsum toga og má þar nefna ljósmyndavinnustofa í Listasafninu, útskurðarnámskeið í Deiglunni, leiklistarnámskeið í Menningarhúsinu Hofi og dansnámskeið í Minjasafninu. Skráning er í fullum gangi.
Almar Alfreðsson, verkefnastjóri Listasumars, segir að alltaf sé vel tekið í námskeiðahald strax eftir lok grunnskóla og nú þegar sé orðið vel bókað í listasmiðjur og námskeið Listasumars. Hann mælir með að foreldrar hugi að skráningu sem fyrst þar sem úrvalið sé spennandi og oftast takmarkaður fjöldi á hvert námskeið.
Þann 29. júní verður tónlistarkonan Una Torfa með tónleika í Menningarhúsinu Hofi sem segja má að séu upphaf spennandi viðburðaraðar júlímánaðar þar sem kennir ýmissa grasa með alls konar tónleikum, uppistandi, bílasýningum, gjörningum og karnivali.
Viðburðadagatal hátíðarinnar er að finna á Listasumar.is en þar eru einnig allar upplýsingar fyrir skráningu í listasmiðjur og á námskeið.
Samstarfsaðilar Listasumars eru Akureyrarbær, Listasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Gilfélagið, RÖSK, Kaktus, Menningarhúsið Hof, Amtsbókasafnið á Akureyri, Bílaklúbbur Akureyrar, Ketilkaffi, Braggaparkið, Sumartónleikar í Akureyrarkirkju og Geimstofan.
Hægt verður að fylgjast með uppákomum á Listasumri á samfélagsmiðlum Akureyrarbæjar á Facebook og Instagram. Einnig er mælt með að gestir hátíðarinnar noti myllumerkið #listasumar og jafnvel merki færslur og sögur með @akureyrarbaer.