Skorað á fyrirtæki að taka þátt í hreinsunarátaki

Vorverkin í Lystigarðinum. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Vorverkin í Lystigarðinum. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Árleg hreinsunarvika á Akureyri stendur nú sem hæst, en þá er fólk hvatt til að taka höndum saman við að hreinsa bæinn eftir veturinn og taka þannig á móti sumrinu með brosi á vör.

Margir bæjarbúar hafa hreinsað í kringum sín hús eða plokkað rusl á almennum svæðum og því ber að fagna. Vorhreinsun sveitarfélagsins á götum og gönguleiðum er jafnframt í fullum gangi.

Markmiðið er einfalt, að gera bæinn fallegri en nokkru sinni fyrr, og þá þurfa allir að leggja hönd á plóg.

Hreinsum í kringum fyrirtæki

Akureyrarbær vill einnig hvetja atvinnurekendur sérstaklega til að taka þátt í hreinsunarátakinu með því að snyrta í kringum vinnustaði.

Í þessu getur til dæmis falist að plokka rusl í nærumhverfinu, snyrta gróður eða laga til á opnum svæðum – allt sem er til þess fallið að fegra umhverfið.

Fyrirtæki og aðrir vinnustaðir eru hvattir til velja sér einn dag í maímánuði til þess að gera fínt í kringum sig. Um leið er þetta skemmtilegt hópefli og tilvalin leið til að brjóta upp hversdaginn með starfsfólki.

Svo er upplagt að deila "fyrir og eftir" myndum á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #hreinsunarvika. Einnig má senda myndir á akureyrarstofa@akureyri.is og við deilum áfram.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan