Nýtnivikan er hafin

Nýtnivikan hefst í dag, 21. nóvember, en hún er samevrópskt átak sem er ætlað að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að draga úr magni úrgangs, minnka sóun, endurvinna og nýta betur.

Þema vikunnar í ár er ósýnilegur úrgangur (e. invisible waste) og snýr að því sem kemur ekki fyrir augu neytenda, einkum í framleiðsluferli, en stór hluti þess úrgangs er urðað með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum. Með því að lengja líftíma hluta má draga mikið úr slíkum úrgangi.

Nýtnivikan á Akureyri hefur síðustu ár verið haldin með fjölbreyttum atburðum og verður sama uppi á teningnum í ár. Breytingin er sú, vegna Covid-19, að viðburðir verða meira og minna með rafrænum hætti að þessu sinni.

Dagskrá:

  • 23. nóv: Amtið – hlaðvarp Amtsbókasafnsins: Sérstakur þáttur kemur út í tilefni Nýtniviku.
  • 24.-25. nóv: Hvað verður um ruslið okkar? Kata Vignis danshöfundur tekur yfir Instagram Akureyrarbæjar. Hún kynnir sér og fræðir áhorfendur um málefni nýtnivikunnar á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt með heimsóknum í fyrirtæki og eigin prófunum.
  • 26. nóv kl. 13: Sérfræðingaspjall og Q&A – það sem ekki sést. Guðmundur Haukur Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku, leiðir umræður um úrgangsmál. Fundinum er streymt á Facebook-síðu Akureyrarbæjar og spurningum áhorfenda svarað jafn óðum.
  • 27. nóv kl. 12: Þemalag Nýtnivikunnar 2020 verður frumflutt á Facebook-síðu Akureyrarbæjar

Þar að auki verður ný heimasíða Vistorku opnuð og nýtt kynningarmyndband um Grænu Akureyri frumflutt í tilefni nýtnivikunnar. Úrgangsmálum verður einnig gert hátt undir höfði á miðlum bæjarins og er rétt að fylgjast vel með.

Íbúar á Akureyri eru hvattir til að taka þátt á sínum forsendum. Til dæmis er upplagt að staldra við og finna nýjar leiðir til að nýta betur og draga úr sóun. Leyfðu okkur að fylgjast með árangrinum og deildu góðum ráðum með því að senda okkur myndir eða skilaboð í gegnum Facebook-síðu Akureyrarbæjar.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan