Námskeið í félagsfærni fyrir unglinga haldið á velferðarsviði

Velferðarsvið Akureyrarbæjar hefur síðustu vikur staðið fyrir svokölluðu PEERS-námskeiði í félagsfærni fyrir unglinga á aldrinum 13 til 15 ára en námskeiðinu lauk í síðustu viku. PEERS stendur fyrir Program for the Education and Enrichment of Relational Skills sem gæti útlagst á íslensku sem Uppfræðsla og efling félagsfærni.

Um er að ræða gagnreynt námskeið fyrir unglinga og ungmenni með einhverfu og ADHD. Þetta er í fyrsta sinn sem velferðarsvið stendur fyrir PEERS-námskeiði í fullri lengd fyrir unglinga en áður hefur verið haldið námskeið fyrir fullorðna. Námskeiðið var 14 tímar og áætlað er að halda annað slíkt í haust.

Fimm ungmenni úr áttunda og níunda bekk, ásamt foreldrum sínum, luku námskeiðinu að þessu sinni. Kennslan fór fram í tveimur hópum þar sem unglingarnir voru saman og foreldrarnir á öðrum stað, en farið var yfir sama eða svipað efni í báðum hópum. Í lok hvers tíma komu hóparnir saman; lögð voru heimaverkefni fyrir unglingana og foreldrarnir fengu það hlutverk að vera félagsþjálfi barnsins og áttu að æfa og styðja unglinginn sinn í að framfylgja heimaverkefnunum.

Markmið PEERS-námskeiðs í félagsfærni er meðal annars að fólk læri leiðir til að eignast vini og halda þeim, getið valið sér hópa sem henta hverjum og einum og læri að takast á við stríðni og einelti, einnig að foreldrar læri leiðir til að efla félagslegt sjálfstæði unglingsins.

Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Fanney Jónsdóttir, Gyða Björk Aradóttir, Anna Dögg Sigurjónsdóttir, Anna Marit Níelsdóttir, Ingveldur Sigurðardóttir og Þórhildur G. Kristjánsdóttir.


Ungmennin fimm sem sóttu námskeiðið.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan