Hafdís er íþróttamaður Akureyrar 2013

Þrjú efstu í kjörinu um íþróttamann Akureyrar 2013. Einar Kristinn Kristgeirsson (2. sæti), Hafdís S…
Þrjú efstu í kjörinu um íþróttamann Akureyrar 2013. Einar Kristinn Kristgeirsson (2. sæti), Hafdís Sigurðardóttir (1. sæti) og Ingvar Þór Jónsson (3. sæti). Mynd: Þórir Tryggvason.

Kjöri íþróttamanns Akureyrar var lýst í verðlaunahófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og íþróttaráðs Akureyrarbæjar í Menningarhúsinu Hofi fyrr í dag. Við sama tækifæri voru afhentar heiðursviðurkenningar íþróttaráðs, ásamt styrkjum og viðurkenningum til þeirra íþróttafélaga á Akureyri sem áttu landsliðsmenn og/eða Íslandsmeistara á árinu 2013.

Hafdís Sigurðardóttir, spretthlaupari og langstökkvari úr Ungmennafélagi Akureyrar, er íþróttamaður Akureyrar 2013. Hafdís bar höfuð og herðar yfir keppinauta sína hér á landi á árinu í spretthlaupum og langstökki. Hún setti þrjú glæsileg Íslandsmet og vann fjölda Íslandsmeistaratitla.

Hafdís setti sitt fyrsta Íslandsmet í flokki fullorðinna í sumar er hún tvíbætti metið í langstökki kvenna. Þá setti hún einnig Íslandsmet í 60 m og 300 m hlaupi í sumar. Hún er sexfaldur Íslandsmeistari kvenna í spretthlaupum og langstökki innan og utanhúss á árinu 2013. Hún sigraði í öllum hlaupum sem hún tók þátt í hér heima sumarið 2013 og er stigahæsta kona í spretthlaupum á árinu í 100 m hlaupi á 11,88 sekúndum, 200 m hlaupi á 23,81 sekúndu og 400 m hlaupi á 54,03 sekúndum.

Eftir keppnistímabilið 2013 er hún komin í Ólympíuhóp FRÍ 2016 í langstökki, 200 m hlaupi og 400 m hlaupi, og stefnir að þátttöku á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Hafdís keppti fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg og hlaut verðlaun í spretthlaupum, langstökki og boðhlaupum á mótinu.

Einar Kristinn Kristgeirsson úr Skíðafélagi Akureyrar varð annar í kjörinu og Ingvar Þór Jónsson frá Skautafélagi Akureyrar varð þriðji.

Hafdís, ásamt öðrum verðlaunahöfum og tilnefndum íþróttamönnum, var leyst út með gjöfum frá Ferðaskrifstofu Akureyrar, Flugfélagi Íslands, Sportveri, Bjarti-Veröld bókaforlagi og Sölku bókaforlagi.

Heiðursviðurkenningar íþróttaráðs Akureyrarbæjar

Íþróttaráð Akureyrarbæjar veitti fimm einstaklingum heiðursviðurkenningu við sama tækifæri; Bryndísi Þorvaldsdóttur, Dýrleif Skjóldal Ingimarsdóttur, Guðmundi Víði Gunnlaugssyni, Halldóri Magnúsi Rafnssyni og Sigurði Stefánssyni. Öll eiga þau að baki áratuga farsælt starf í þágu hinna ýmsu íþróttagreina innan íþróttahreyfingarinnar á Akureyri.


Heiðursviðurkenningar íþróttaráðs Akureyrar. Frá vinstri: Halldór Magnús Rafnsson, Guðmundur Víðir Gunnlaugsson, Dýrleif Skljóldal Ingimarsdóttir, Bryndís Þorvaldsdóttir og Sigurður Stefánsson. Mynd: Þórir Tryggvason.

171 Íslandsmeistari, 102 landsliðsmenn

Íþróttaráð og Afrekssjóður Akureyrar veittu jafnframt þeim íþróttafélögum sem áttu Íslandsmeistara og/eða landsliðsfólk á árinu 2013 viðurkenningar og styrki. Alls eignuðust 12 íþróttafélög á Akureyri 171 Íslandsmeistara og 11 akureyrsk íþróttafélög áttu 102 landsliðsmenn á árinu. Skautafélag Akureyrar á flesta einstaklinga í báðum þessum hópum, 85 Íslandsmeistara og 36 landsliðsmenn.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan