Vinna við nýja kirkju í Grímsey heldur áfram

Frá sjálboðavinnu íbúa. Mynd: Anna María Sigvaldadóttir
Frá sjálboðavinnu íbúa. Mynd: Anna María Sigvaldadóttir

Tvö ár eru liðin frá því að kirkjan í Grímsey brann. Það var mikið áfall en eyjaskeggjar létu þó engan bilbug á sér finna. Strax var hafist handa við að safna styrkjum til að hanna og reisa nýja kirkju.

Framkvæmdir hófust vorið 2022 en reyndust dýrari en ráð var fyrir gert. Verkefnið sigldi því í strand í lok síðasta árs. Núna í haust var þráðurinn þó tekinn upp að nýju og verður haldið áfram við frágang á nýrri Miðgarðakirkju í takt við það fjármagn sem safnast. Viðbygging sem hýsir meðal annars almenningssalerni er að mestu lokið en sá hluti verksins hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Um síðustu helgi lögðust íbúar á eitt og unnu að því í sjálfboðavinnu að einangra sjálfa kirkjuna að innan. Þótt hún sé ekki tilbúin þá hefur hún þó nú þegar verið nýtt til helgihalds og fór fyrsta brúðkaupið fram í henni um mitt sumar.

Munum að margt smátt gerir eitt stórt og leggjum þessu verðuga verkefni við heimskautsbauginn lið.

Þeim sem vilja leggja verkefninu lið er bent á söfnunarreikning Miðgarðakirkju:

Kennitala: 460269-2539
Reikningsnúmer: 565-04-250731
IBAN: IS76 0565 0425 0731 4602 6925 39
SWIFT: GLITISRE

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan