Oddeyri - ráðgefandi íbúakosning

Athugið að ráðgefandi íbúakosningu er lokið. Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 15. júní að vísa málinu aftur til umfjöllunar í skipulagsráði.

--

Ráðgefandi íbúakosning um breytingu á aðalskipulagi Oddeyrar verður haldin 27.-31. maí næstkomandi. Svæðið sem um ræðir afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri.

Í stuttu máli:

  • Íbúakosningin verður rafræn í þjónustugátt Akureyrarbæjar. 
  • Valið verður á milli þriggja valkosta sem fela í sér mismunandi hámarkshæð bygginga. 
  • Allir íbúar 18 ára og eldri með lögheimili í Akureyrarbæ geta kosið. 
  • Kosningin verður ráðgefandi en ekki bindandi. Þetta er því fyrst og fremst könnun á vilja íbúa gagnvart uppbyggingu á svæðinu. 

Kostirnir eru þrír:

  1. Gildandi aðalskipulag - 3-4 hæðir
  2. Tillaga þar sem hús geta verið 5-6 hæðir, 22 m.y.s. að hámarki, þó aldrei hærri en 4 hæðir syðst á reitnum.
  3. Auglýst tillaga þar sem hús geta verið 6-8 hæðir, 25 m.y.s. að hámarki

Uppfært: Alls tóku 3.878 íbúar sveitarfélagsins þátt í ráðgefandi íbúakosningunni eða um 26% þeirra sem uppfylltu skilyrði til þátttöku. Flestir greiddu gildandi aðalskipulagi atkvæði, eða 67% þeirra sem tóku þátt. Þar á eftir kom auglýst tillaga þar sem hús geta verið 6-8 hæðir og því næst málamiðlunartillaga með 5-6 hæða húsum að hámarki. 

  

Athugið að þessar myndir eru ekki af væntanlegu útliti húsa, heldur einungis módel til að sýna mögulegt byggingarmagn. Hvort sem ákveðið verður að breyta aðalskipulagi eða ekki þá á eftir að vinna deiliskipulag og hanna húsin. 

Nánari upplýsingar um valkostina og fleiri myndir:

3-4 hæðir

Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi Akureyrarbæjar er svæðið að mestu skilgreint sem athafnasvæði og er gert ráð fyrir að nýjar byggingar verði almennt 3-4 hæðir. 

Í gildandi aðalskipulagi er jafnframt gert ráð fyrir þéttingu íbúðabyggðar og eru nokkur svæði í bænum skilgreind sem þróunarsvæði sem gætu tekið nokkrum breytingum á komandi árum. Umræddur reitur er eitt þeirra svæða.

 

 

Athugið að þessar myndir eru ekki af væntanlegu útliti húsa, heldur einungis módel til að sýna mögulegt byggingarmagn, umfang og ásýnd frá nokkrum stöðum í bænum. 

5-6 hæðir

Þetta er sú málamiðlunartillaga sem skipulagsráð lagði til við bæjarstjórn að samþykkja þann 10. mars 2021. Samkvæmt tillögunni getur hámarkshæð húsa verið allt að 22 m.y.s. sem felur í sér að húsin geti verið 5-6 hæðir að hámarki. Jafnframt eru sett inn ákvæði um að hús syðst á reitnum, næst Gránufélagshúsunum, megi að hámarki vera 4 hæðir. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð með íbúðum í fjölbýlishúsum og atvinnustarfsemi á neðstu hæð í hluta húsanna.

 

  

Athugið að þessar myndir eru ekki af væntanlegu útliti húsa, heldur einungis módel til að sýna mögulegt byggingarmagn, umfang og ásýnd frá nokkrum stöðum í bænum.

6-8 hæðir

Þetta er sú tillaga að aðalskipulagsbreytingu sem var auglýst formlega 6. janúar 2021 í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar. Breytingin felur í sér að hæð einstakra bygginga geti orðið allt að 25 metrar yfir sjávarmáli eða 6-8 hæðir. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð með íbúðum í fjölbýlishúsum og atvinnustarfsemi á neðstu hæð í hluta húsanna.

 

 

 Athugið að þessar myndir eru ekki af væntanlegu útliti húsa, heldur einungis módel til að sýna mögulegt byggingarmagn, umfang og ásýnd frá nokkrum stöðum í bænum.

 

Ferli málsins

Skipulagsráð samþykkti sumarið 2019 að hefja vinnu við að breyta aðalskipulagi svæðisins og voru fyrstu hugmyndir að uppbyggingu kynntar þá um haustið. Málið vakti strax mikla athygli og hafa tillögur tekið ýmsum breytingum, einkum til að bregðast við ábendingum frá íbúum og umsagnaraðilum. 

Skipulagsbreytingar á Oddeyri - vendipunktar 2019-2021

- Bæjarstjórn samþykkti í byrjun október 2019 tillögu að skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi. Um sumarið hafði skipulagsráð samþykkt að hefja vinnu við breytingar sem tækju mið af tillögu þróunaraðila. Tillagan gerði ráð fyrir uppbyggingu allt að fimm 6-11 hæða fjölbýlishúsa með íbúðum á efri hæðum, en atvinnustarfsemi og bílastæðahúsi á neðstu hæðum.

- Haldinn var fjölmennur kynningarfundur um skipulagsmál á Oddeyri 21. október 2019 þar sem fyrstu hugmyndir að uppbyggingu voru kynntar. 

- Drög að breytingu á aðalskipulagi voru kynnt 6. maí 2020. Þá hafði verið sett inn skilyrði um að nýjar byggingar verði ekki hærri en 25 m.y.s. sem felur í sér að heimilt sé að byggja 6-8 hæða hús. Áfram er gert ráð fyrir íbúðum á efri hæðum en á jarðhæð er sett skilyrði um að 25% rýmis verði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi. 

- Athugasemdafrestur við tillögu að skipulagsbreytingunni rann út 27. maí 2020 og voru íbúar hvattir til að kynna sér málið og koma sínum sjónarmiðum á framfæri. 

- Alls bárust 68 athugasemdir frá almenningi og fimm umsagnir við tillögu að aðalskipulagsbreytingu, líkt og sagt var frá á heimasíðunni 12. júní 2020. Skipulagsráð frestaði afgreiðslu málsins 10. júní og var sviðsstjóra skipulagssviðs og formanni skipulagsráðs falið að funda með hagsmunaaðilum um framhald málsins. 

- Meirihluti skipulagsráðs samþykkti 9. september 2020 að leggja til við bæjarstjórn að aðalskipulagsbreyting verði auglýst í samræmi við skipulagslög. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti 15. september 2020 að auglýsa aðalskipulagsbreytinguna sem felur í sér að hluti athafnasvæðis á Oddeyri verði skilgreint sem íbúðasvæði og að hæð einstakra bygginga geti orðið allt að 25 metrar yfir sjávarmáli. 

- Kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Akureyrar ákváðu að afnema minni- og meirihluta í bæjarstjórn og skrifuðu undir nýjan samstarfssáttmála 22. september 2020. Í samstarfssáttmálanum segir: „Við ætlum að tryggja að uppbygging þróunarreitar á Oddeyrinni fari í íbúakosningu í gegnum þjónustugátt“. 

- Breyting á aðalskipulagi var auglýst formlega 6. janúar 2021, í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar frá 15. september 2020. 

- Tillaga var lögð fram í skipulagsráði að lokinni auglýsingu 24. febrúar 2021. Alls bárust 95 athugasemdir frá almenningi auk sex umsagna. Afgreiðslu málsins var frestað. 

- Skipulagsráð tók málið fyrir að nýju 10. mars 2021 og var lögð fram tillaga að svörum við efni athugasemda og umsagna. Meirihluti skipulagsráðs samþykkti að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja aðalskipulagsbreytinguna með breytingum til að koma til móts við hluta athugasemda og umsagna. Í þessum breytingum felst að hámarkshæð húsa lækkar í 20 m.y.s. sem felur í sér að húsin geta verið 5-6 hæðir að hámarki. Jafnframt eru sett inn ákvæði um að hús syðst á reitnum, næst Gránufélagshúsunum, megi að hámarki vera 4 hæðir. 

- Bæjarstjórn samþykkti 16. mars 2021 með 11 samhljóða atkvæðum að vísa breytingu á aðalskipulagi Oddeyrar í íbúakosningu í samræmi við samstarfssáttmála bæjarstjórnar. Lagt var til að kosningin færi fram með rafrænum hætti í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar eigi síðar en 31. maí. 

- Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti á fundi sínum 20. apríl 2021 að íbúakosningin fari fram í þjónustugáttinni dagana 27.-31. maí næstkomandi. Jafnframt var samþykkt að kosningin verði ráðgefandi og að valið verði á milli þriggja valkosta. 1. Óbreytt aðalskipulag sem kveður á um að byggingar séu almennt ekki hærri en 4 hæðir. // 2. Síðasta tillaga auglýst af bæjarstjórn þar sem hámarkshæð húsa er 25 m.y.s. sem felur í sér að húsin geta verið 6-8 hæðir að hámarki. // 3. Málamiðlunartillaga þar sem hámarkshæð húsa er 22 m.y.s. sem felur í sér að húsin geta verið 5-6 hæðir að hámarki, þó aldrei hærri en 4 hæðir syðst á reitnum.

 

Spurningar og svör

Vafalaust brenna einhverjar spurningar á íbúum og hér að neðan eru svör við nokkrum þeirra. Ekki hika við að senda okkur fleiri spurningar sem ættu heima hér. Netfangið er skipulagssvid@akureyri.is 

Hvers vegna er verið að kjósa?​

Allt frá því fyrstu hugmyndir að uppbyggingu á svæðinu voru kynntar haustið 2019 hefur málið vakið mikla athygli og umræðu í samfélaginu. Til merkis um það bárust hátt í 100 athugasemdabréf frá almenningi við auglýsta aðalskipulagsbreytingu. Gerðar hafa verið ýmsar breytingar til að bregðast við athugasemdum og umsögnum en enn eru mjög skiptar skoðanir um þau áform sem hafa verið kynnt.

Bæjarstjórn skrifaði undir nýjan samstarfssáttmála í september 2020 og þar kemur fram að uppbygging þróunarreitar á Oddeyri skuli fara í íbúakosningu. Í samræmi við þá stefnu samþykkti bæjarstjórn með 11 samhljóða atkvæðum í mars sl. að vísa málinu í íbúakosningu í gegnum þjónustugátt sveitarfélagsins.

Ákveðið hefur verið að kosningin verði ráðgefandi en ekki bindandi og því er fyrst og fremst um könnun að ræða. Markmiðið er að fá fram viðhorf íbúa gagnvart uppbyggingu á svæðinu. 

Hvað er aðalskipulag?

Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir tiltekið sveitarfélag þar sem fram kemur stefna sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu. 

Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar. Í aðalskipulagi eða breytingu á því er heimilt að setja fram nánari stefnu, svo sem um nýbyggingarsvæði eða endurbyggingarsvæði í eldri byggð eða um einstök viðfangsefni.

Hvað þýða valkostirnir fyrir framtíðaruppbyggingu á Oddeyri?

Svæðið sem kosningin nær til afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri. Þessi reitur er hins vegar hluti af stærra þróunarsvæði á Oddeyri en engin frekari áform eru uppi um breytingar eins og staðan er núna.

Hver sem niðurstaðan verður í þessu máli þá er það verkefni næstu bæjarstjórnar að taka gildandi aðalskipulag til umfjöllunar. 

Hvað þýða valkostirnir fyrir fjárhag bæjarins? 

Umfangsmeiri uppbygging felur í sér hærri gatnagerðargjöld auk þess sem tekjur af fasteignagjöldum til framtíðar verða hærri.

Hvaða áhrif hafa hugsanlegar breytingar á flug?

Fyrir liggur umsögn frá ISAVIA þar sem mælst er til að hæð bygginga fari ekki upp fyrir 30 m.y.s. og þar sem allir kostirnir eru vel þar undir ætti uppbyggingin ekki að hafa áhrif á flug.

Hvað verður um byggingar sem eru á svæðinu nú þegar?

Í öllum tillögum felst að heimilt verður að fjarlægja öll núverandi mannvirki á svæðinu, fyrir utan Gránufélagshúsin, en ekki er þó kveðið á um að þær skuli fjarlægðar. 

Hvað gerist næst?

Bæjarstjórn samþykkti að íbúakosningin verði ráðgefandi og er markmiðið að kanna viðhorf íbúa gagnvart uppbyggingu á svæðinu. Bæjarstjórn mun í kjölfar kosningarinnar taka málið til umfjöllunar og ákveða næstu skref.

Hvernig get ég tekið þátt? 

- Hver íbúi með lögheimili í sveitarfélaginu, 18 ára og eldri, hefur eitt atkvæði.

- Kosningin fer fram í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar sem er aðgengileg hér á heimasíðunni.

- Nauðsynlegt er að skrá sig inn með Íslykli eða rafrænum skilríkjum.

- Þegar komið er inn í þjónustugáttina velur þú "Kannanir" úr stikunni, þar á eftir smellir þú á "Oddeyri - ráðgefandi íbúakosning" og þá birtast möguleikarnir sem  hægt er að velja á milli. 

- Hægt er að kjósa frá og með 27. maí til og með 31. maí

Samkvæmt reglugerð um undirbúning og framkvæmd rafrænna íbúakosninga á íbúi að geta kannað hvort hann er á kjörskrá í kosningunum fimm dögum áður en þær hefjast. Hvar geta íbúar kannað það? 

Ákveðið var að íbúakosningin yrði ráðgefandi en ekki bindandi og er markmiðið fyrst og fremst að kanna viðhorf íbúa til uppbyggingar á svæðinu. Til þess er notast við kannanakerfi í þjónustugátt Akureyrarbæjar. Framkvæmdin miðast því við að þetta sé íbúakönnun fremur en rafræn íbúakosning í skilningi reglugerðar um undirbúning og framkvæmd rafrænna íbúakosninga. Líkt og kemur fram hér á upplýsingasvæðinu og í öðru kynningarefni þá geta allir tekið þátt sem eru með lögheimili í sveitarfélaginu og hafa náð 18 ára aldri.

Samkvæmt reglugerð um undirbúning og framkvæmd rafrænna íbúakosninga á að birta opinberlega upplýsingar um kosningakerfið, virkni þess og hvernig gögnum er eytt að kosningum loknum. Eru þessar upplýsingar aðgengilegar einhversstaðar?

Framkvæmdin miðast við að þetta sé könnun fremur en rafræn íbúakosning í skilningi reglugerðar og þar af leiðandi er notast við kannanakerfi í þjónustugáttinni. 

Nánar um kannanakerfið í þjónustugátt:

• Læstur vefur: Kosningin er inn á læstum vef sem krefst innskráningar þannig að það getur ekki hver sem er komist inn.
• Aðeins íbúar með lögheimili á Akureyri geta kosið: Kosningin er stillt þannig að aðeins þeir sem eru með skráð lögheimili í póstnúmerunum sem tilheyra Akureyri geta kosið.
• Hver aðili getur bara kosið einu sinni.
• Trúnaður: Enginn, hvorki starfsmenn bæjarins né kerfisstjórar kerfisins geta séð neitt um framvindu kosningarinnar fyrr en búið er að loka kosningu. Þeir geta heldur ekki rakið svör til einstakra svarenda.
• Hægt er að fá upplýsingar um hve margir hafa kosið frá rekstraraðila kerfisins á meðan kosningin er opin en ekki er hægt að fá dreifingu atkvæða. Að kosningu lokinni geta rekstraraðilar kerfisins rakið einstök atkvæði í loggum ef eitthvað kemur uppá en þeir eru bundnir trúnaði um störf sín. Við getum óskað eftir að þeir eyði þessum loggum þegar hóflegur tími er liðinn frá kosningu.
• Rekjanleiki: Það er allt loggað í sambandi við kosninguna þannig að ef eitthvað kemur uppá er hægt að hafa samband við rekstraraðila kerfisins og láta þá skoða málið.

Hafa þróunaraðila verið gefin vilyrði um aðkomu að gerð deiliskipulags og/eða úthlutun lóða ef breyting á aðalskipulagi nær fram að ganga? Ef svarið er já, hvaða skilyrðum, ef einhverjum, eru þau vilyrði háð?

Vinna við gerð deiliskipulags er ekki farin af stað og ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig að henni verður staðið. Varðandi úthlutun lóða að þá er staðan sú að Akureyrarbær hefur ekki umráð yfir neinni lóð á svæðinu og ekki liggur fyrir að bærinn ætli í eignakaup eða eignarnám. Bærinn hefur því ekki neina lóð til úthlutunar og hefur því ekki gefið nein vilyrði til þróunaraðila um úthlutun lóða.

Á þróunaraðilinn þær lóðir og eignir sem fyrir eru á svæðinu?

Þróunaraðilinn er lóðarhafi einnar lóðar á svæðinu og eigandi mannvirkja sem á henni eru. Þá er hann einnig eigandi hluta mannvirkja á annarri lóð á svæðinu. Hann er því ekki lóðarhafi/eigandi allra lóða eða mannvirkja á svæðinu.

Er fyrirhugað að kaupa upp þær eignir og lóðir sem fyrir eru á svæðinu til að rýma fyrir nýju skipulagi og ef já, hvernig yrði uppkaupum háttað?

Akureyrarbær hefur ekki neinar áætlanir um að kaupa eignir og/eða lóðir sem eru á svæðinu til að rýma fyrir nýju skipulagi.

Í fundargerðum skipulagsráðs kemur fram að upphaflega hafi verið horft til þess að gera deiliskipulag fyrir stærra svæði (að Laufásgötu) en að svæðið hafi verið minnkað eftir að þróunaraðili kynnti hugmyndir sínar. Hver er ástæða þess?

Það er rétt að í upphafi skipulagsvinnunnar var skoðað hvort að fyrirhugað deiliskipulag ætti að ná til stærra svæðis en það svæði sem aðalbreytingin nær til. Skipulagsráð ákvað þó eftir skoðun á málinu að miða eingöngu við það svæði sem þróunaraðili óskaði eftir þar sem enginn aðili á aðliggjandi reit hafði óskað eftir breytingum á skipulagi og Akureyrarbær var ekki umráðandi yfir neinni lóð á því svæði.

 

Síðast uppfært 06. ágúst 2021