Samþykkt Akureyrarkaupstaðar um götu‐ og torgsölu

 

1. gr. Tilgangur og almennar forsendur

Götu‐ og torgsala eflir bæjarbrag og eykur við fjölbreytni í starfsemi og þjónustu bæjarins. Samþykkt þessari er ætlað að tryggja að vel sé að þessum málaflokki staðið, sölustarfsemi sé í sátt við nærumhverfi sitt og að upplýsingar séu aðgengilegar og gagnsæjar.

Samþykkt þessi um götu‐ og torgsölu á við um hvers kyns kynningar-, sölu- og þjónustustarfsemi í Akureyrarkaupstað sem fer fram utanhúss og á almannafæri, s.s. á torgum, götum, gangstéttum, í almenningsgörðum, einkalóðum og á umráðasvæði Hafnasamlags Norðurlands.

Götu- og torgsala er leyfisskyld í Akureyrarkaupstað. Fjórir valkostir eru í boði, þar af eru þrír leyfisskyldir sjá nánar 3. gr.

Þeir eru:

A.         LANGTÍMALEIGUSVÆÐI SÖLUVAGNA

B.         MARKAÐS- og SÖLUSVÆÐI - STÆRRI VIÐBURÐIR

C.         NÆTURSÖLUSVÆÐI

D.        MARKAÐS- OG SÖLUSVÆÐI EINSTAKLINGA

Minniháttar góðgerðasölur, s.s. tombólur og styrktarsala sem er ekki í ágóðaskyni, eru ekki leyfisskyldar og falla ekki undir samþykkt þessa. Önnur sala, sem hvorki krefst yfirbyggingar né sérstakrar aðstöðu að neinu leyti, t.d. dagblaðasala er heldur ekki leyfisskyld og fellur ekki undir samþykkt þessa. Ávallt ber þó að gæta hreinlætis og er söluaðila skylt að sjá til þess að umhverfi sölusvæðis sé snyrtilegt.

Skipulagsdeild er umsjónaraðili götu‐ og torgsölu og sér um leyfisveitingar langtímaleyfa, nætursölu og markaðssölu stærri viðburða, auk eftirlits og upplýsingagjafar. Skipulagsdeild hefur sér til fulltingis skipulagsnefnd til að fara með málefni götu- og torgsölu f.h. bæjarins á grundvelli samþykktar þessarar. Leyfisveiting byggist meðal annars á umsóknum þar sem gerð er grein fyrir starfseminni og öðrum þáttum, sjá nánar 2. gr. b liðar.

Götu‐ og torgsala er háð kvöð um að útlit söluaðstöðu falli vel í umhverfinu og að efnisnotkun, ásýnd og yfirbragð sé vandað og við hæfi þar sem salan á að eiga sér stað. Settir eru fyrirvarar um merkingar og vöruframboð og lögð áhersla á að söluvarningur sé viðbót við það vöruúrval sem fyrir er hjá nærliggjandi þjónustuaðilum.

Forsendur fyrir notkun á götum, torgum og landi bæjarins eða umráðasvæði Hafnasamlags Norðurlands er að björgunaraðilar s.s. lögregla, slökkvilið og sjúkraflutningar hafi þar ávallt greiðan aðgang og viðunandi starfsskilyrði.

Aðrir skilmálar sölusvæða eru:

a)      Götu‐ og torgsala má ekki skerða öryggi og aðgengi gangandi, hjólandi og akandi umferðar eða birgja glugga rekstraraðila á sölusvæðinu.

b)      Lágmarksfjarlægð frá inngangi næsta rekstraraðila með sambærilega vöru skal vera að minnsta kosti 20 metrar.

c)      Leyfishöfum langtímaleyfa, nætursölu og markaðssölu stærri viðburða er óheimilt að stunda götu‐ og torgsölu annars staðar en leyfið kveður á um.

d)      Markaðssala einstaklinga er einungis heimiluð á afmörkuðum svæðum, sjá 3. gr. d-lið.

e)      Tryggja skal að ekki hljótist mengun af starfseminni.

f)       Leyfishafar langtímaleyfa, nætursölu og markaðssölu stærri viðburða skulu alltaf hafa leyfisbréf tiltæk.

g)       Götu- og torgsöluleyfi er ekki hægt að framselja eða framleigja.

2. gr. Umsóknarferli og málsmeðferð umsókna langtímaleyfa, nætursölu og markaðssölu fyrir stærri viðburði

Fyrirkomulag úthlutunar langtíma-, nætursölu- og markaðssöluleyfa stærri viðburða byggir á „fyrstur kemur- fyrstur fær“ fyrirkomulagi og á það við um eitt leyfi að hámarki. Í því felst að umsóknir verða samþykktar í þeirri röð sem þær berast, sjá þó ákvæði 3. gr.

Leyfisveitandi skal auglýsa í staðarblaði og á heimasíðu Akureyrarbæjar í lok árs eftir umsóknum um langtímaleyfi. Frá og með auglýsingardegi verða umsóknir auðkenndar með dagsetningu og tíma þegar móttaka er staðfest.

Götu- og torgsöluheimildir (nætursala, markaðssala einstaklinga og markaðssala stærri viðburða) utan langtímaleyfa gilda ekki á eftirtöldum hátíðum: 17. júní, verslunarmannahelgi eða Akureyrarvöku og einnig ef um er að ræða sérstaka viðburði á vegum eða í samvinnu við Akureyrarbæ. Akureyrarstofa, í samstarfi við viðburðahaldara, skal auglýsa fyrirkomulag sölustarfsemi á ofangreindum hátíðum og veita tilskilin leyfi. Akureyrarstofa skal sækja um leyfi til skipulagsstjóra um afnot af bæjarlandi vegna viðburða.

Leyfisveitanda er heimilt að hafna umsóknum sem berast ef hann telur að sú starfsemi sem í umsókninni felst uppfylli ekki almennar kröfur til sölustarfsemi, og/eða að starfsemin uppfylli ekki kröfur um fjölbreytileika og mismunandi framboð á þjónustu. Höfnun skal rökstyðja með málefnalegum hætti.

Hafni leyfisveitandi umsókn þá fellur umsóknin út og næsta umsókn þar á eftir færist upp í hennar stað.

a)      Eyðublöð um langtímaleyfi, nætursölu og markaðssölu fyrir stærri viðburði er hægt að nálgast HÉR.

b)      Í umsókn skulu koma fram nákvæmar upplýsingar eftir því sem við á, t.a.m.

1.1.       ósk um staðsetningu og stærð

1.2.       uppdráttur af tilhögun sölusvæðis

1.3.       ósk um gildistíma söluleyfis

1.4.       sölustarfsemi og vöruframboð

1.5.       gerð söluaðstöðu, umfang og umgjörð

1.6.       útlit söluaðstöðu

1.7.       söluop

1.8.       sölu/opnunartíma

1.9.       auglýsingar

1.10.   fjöldi söluaðila

1.11.   sorpílát

1.12.   orkugjafa

1.13.   raforkuþörf

1.14.   aðveitu- og fráveituþörf

c)      Með umsókn skulu fylgja umsagnir þeirra aðila sem þörf er á hverju sinni, s.s. lögreglustjóra og eldvarnaeftirlits.

  • Sá sem vill selja matvæli eða aðra neysluvölu skal sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra samkvæmt lögum um matvæli nr. 93/1995 m.s.b.
  • Sá sem vill selja merkingarskylda efnavöru s.s. snyrtivörur skal sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir m.s.b.

d)      Handhafar langtímaleyfa, nætursölu og markaðssölu fyrir stærri viðburði skulu uppfylla ákvæði laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu.

3. gr. Fjórir valkostir um götu- og torgsölu

Sölustarfsemi getur m.a. farið fram í:

a)      sölubifreið þar sem afgreitt er út um söluop, sækja þarf sérstaklega um leyfi og staðsetningu

b)      söluvagni sem dreginn er af bifreið eða á annan hátt, ekki þarf að sækja sérstaklega um leyfi ef staðsetning er innan markaðs-og sölusvæði einstaklinga

c)      söluskála, tjaldi, sölubás, ekki þarf að sækja sérstaklega um leyfi ef staðsetning er innan markaðs-og sölusvæði einstaklinga

d)      opnu rými undir berum himni, ekki þarf að sækja sérstaklega um leyfi ef staðsetning er innan markaðs- og sölusvæðis einstaklinga

  1. A.     LANGTÍMALEIGUSVÆÐI SÖLUVAGNA

Á afmörkuðum svæðum er veitt langtímaleyfi fyrir stöðu söluvagna sbr. fylgiskjal 1. Auglýst eru laus leyfi í desember hvert ár. Útgefið leyfi gildir í 6 eða í 12 mánuði og fyrir allar hátíðir og viðburði. Sala er heimiluð frá 07:00 til kl. 04:00. Almennt skal miða sölustarfsemi við lokun vínveitingahúsa og tekur framangreind tímasetning mið af því sbr. lög og reglur sem um starfsemina gilda á hverjum tíma eða eftir ákvörðun bæjarráðs hverju sinni. Forleiguréttur er í gildi fyrir þessi svæði og hefur umsækjandi sem hefur haft leyfi frá fyrra ári, forgang umfram aðra. Umsækjandi skal vera skuldlaus við Akureyrarkaupstað og skal hafa virt lögreglusamþykkt Akureyrarkaupstaðar og samþykkt þessa við endurumsókn að öðrum kosti fellur forleigurétturinn niður. Sækja þarf um tengingu við rafmagn á þessum svæðum. Greitt skal fyrir langtímaleigusvæði samkvæmt gjaldskrá Akureyrarkaupstaðar um stöðuleyfi. Uppsögn, lok og afturköllun söluleyfis er skv. 6. gr. Sölusvæði geta tekið breytingum á leyfistímanum.

  1. B.      MARKAÐS- OG SÖLUSVÆÐI - STÆRRI VIÐBURÐIR

Hægt er að sækja sérstaklega um afnot af bæjarlandi þ.m.t. á umráðasvæðis Hafnasamlags Norðurlands í samráði við stjórn Hafnasamlagsins, fyrir stærri markaði eða viðburði í margvíslegum tilgangi s.s. sirkus, tívolí, litbolta o.þ.h. Sala/opnunartími er heimilaður frá kl. 8:00 til 24:00.

Leyfisgjald umsóknar er 50.000 kr.

Uppsögn, lok og afturköllun söluleyfis er skv. 6. gr. Sölusvæði geta tekið breytingum á leyfistímanum.

  1. C.      NÆTURSÖLUSVÆÐI

Á afmörkuðum svæðum er veitt leyfi fyrir söluvagna sbr. fylgiskjal 1 þar sem sala er heimiluð frá kl. 22:00 – 04:00. Almennt skal miða sölustarfsemi við lokun vínveitingahúsa og tekur framangreind tímasetning mið af því sbr. lög og reglur sem um starfsemina gilda á hverjum tíma, eða eftir ákvörðun bæjarráðs hverju sinni. Lágmarksfjarlægð frá inngangi næsta rekstraraðila með sambærilega vöru skal vera að minnsta kosti 20 metrar.

Söluaðilum er gefinn kostur á því að kynna fyrir skipulagsstjóra, eða staðgengli hans, tillögur að öðrum nætursölusvæðum sem verða skoðaðar og eftir atvikum samþykktar til reynslu af skipulagsnefnd. Söluaðilar geta þannig sótt um leyfi fyrir sölustarfsemi frá bílastæðum eða öðrum hentugum stöðum í bænum til skipulagsnefndar.

Leyfisgjald  er 8.000 kr. pr. nótt.

Uppsögn, lok og afturköllun söluleyfis er skv. 6. gr. Sölusvæði geta tekið breytingum á leyfistímanum.

  1. D.     MARKAÐS- OG SÖLUSVÆÐI EINSTAKLINGA

Á afmörkuðum svæðum er heimilt að stunda götu- og torgsölu án sérstaks leyfis eða gjaldtöku til bæjarsjóðs sbr. fylgiskjöl nr. 1-6 þessarar samþykktar. Sala er heimiluð frá kl. 09:00‐21:00.  Gerð er krafa um að söluvarningur sé viðbót við það vöruframboð sem fyrir er hjá nærliggjandi verslunar- og þjónustuaðilum.

Eftirfarandi svæði eru skilgreind sem markaðssvæði einstaklinga sjá einnig fylgiskjöl 1-5:

a)      Miðbæjarsvæði, sjá fylgiskjal 1

b)      Samkomuhússflöt, sjá fylgiskjal 2

c)      Á svæði Hofs og við smábátalægi við Torfunef, sjá fylgiskjal 3

d)      Almenningsgarðar í umsjón Akureyrarbæjar

  • Hamarkotstún, sjá fylgiskjal 4
  • Eiðsvöllur, sjá fylgiskjal 5

e)      Hátíðarsvæði í Hrísey í samráði við hverfisráð, sjá fylgiskjal 6

f)       Svæði í Grímsey í samráði við hverfisráð

Söluaðilum er gefinn kostur á því að kynna fyrir skipulagsstjóra, tillögur að öðrum götu- og torgsölusvæðum sem verða skoðaðar og eftir atvikum samþykktar til reynslu af skipulagsnefnd.

Rafmagnstenging er fyrir takmarkaðan fjölda á Ráðhústorgi og á Samkomuhússflöt. Ef óskað er eftir tengingu við rafmagn skal greitt tengigjald kr. 5.000 á dag.

Sölusvæði geta tekið breytingum á leyfistímanum.

4. gr. Skyldur leyfishafa ‐ umgengni

Eftirfarandi kröfur eru gerðar til leyfishafa:

a)      að sjá til þess að umhverfi sölusvæðis sé ávallt haldið hreinu.

b)      að sjá um snjómokstur og hálkuvarnir í nánasta umhverfi sínu, þannig að öryggi vegfarenda verði á hverjum tíma tryggt.

c)      Fjarlægja skal söluaðstöðu ásamt öllum aðfluttum búnaði og sorpi af sölusvæði hið fyrsta eftir lokun. Engin ummerki skulu vera um starfsemina utan skilgreinds sölutíma sem skilgreindur er í 3. gr.

d)      Ef sala fer fram innan einkalóða skal framvísa samþykki meirihluta lóðarhafa að ósk eftirlitsaðila.

Verði misbrestur á ofangreindu getur skipulagsstjóri látið fjarlægja söluaðstöðu með aðstoð lögreglu og látið hreinsa sölusvæðið á kostnað leyfishafa. Skemmdir á umhverfi sölusvæðis af völdum leyfishafa verða lagfærðar af framkvæmdadeild Akureyrarbæjar á kostnað viðkomandi leyfishafa.

5. gr. Útlit og merkingar

a)      Óheimilt er að setja upp hvers kyns auglýsingaskilti og merkingar varðandi söluaðstöðu utan við skilgreint sölusvæði. Skiltið má aðeins auðkenna viðkomandi sölustarfsemi og gilda þar um takmarkanir á stærð og útliti.

b)      Óheimilt er að hengja skilti eða aðrar merkingar í nærliggjandi tré, húsveggi, skilti, staura o.s.frv. Útstillingahlutir, skilti o.fl. mega ekki birgja sýn á opinber skilti eða búnað til umferðarstjórnunar eða hindra umferð vegfarenda í bænum.

6. gr. Uppsögn, lok og afturköllun söluleyfis

Eftirfarandi ákvæði gilda um uppsögn, lok og afturköllun söluleyfis:

a)      Leyfi getur hvenær sem er verið afturkallað ef ákvæði leyfis þessa eða önnur atriði leyfisins hafa verið brotin, án endurgreiðslu leyfisgjalds.

b)      Leyfi getur hvenær sem er verið afturkallað ef áform eru um að svæðið verði notað í opinberum tilgangi, skal þá endurgreiða leyfishafa eftirstöðvar leyfisgjalds.

c)      Leyfi getur verið afturkallað ef samfellt rof myndast á sölustarfsemi í meira en 90 daga.

d)      Leyfishafa er gert skylt að laga sig að vega‐ og byggingaframkvæmdum og viðburðum á götu‐ og torgsölusvæðum, sem geta leitt til tímabundins flutnings og/eða afturköllunar leyfis. Leyfishafa skal tilkynnt um slíkar ráðstafanir með fyrirvara. Ekki eru greiddar bætur fyrir tímabundna afturköllun á langtímaleyfum vegna veghalds eða annarra verkefna veghaldara og landeigenda, t.d. þar sem lagnir eða leiðslur hafa brostið.

e)      Við uppsögn leyfis hvílir sú kvöð á leyfishafa að fjarlægja söluaðstöðu þ.m.t. alla fylgihluti og innréttingar af sölusvæði. Ef verkið er ekki unnið innan tilgreinds tímafrests getur skipulagsstjóri látið fjarlægja söluaðstöðu með aðstoð lögreglu og látið hreinsa sölusvæðið á kostnað leyfishafa.

7. gr. Aðrar reglur og yfirvöld

Stjórn Akureyrarstofu setur sérstakar reglur um fyrirkomulag og staðsetningu sölustarfsemi á bæjarhátíðum hverju sinni, sjá nánar 2. gr.

8. gr. Breytingar á fjárhæð gjalda

Gjöld skv. gjaldskrá þessari miðast við byggingarvísitölu í janúar 2011 (100,8 stig) og skulu uppfærð eftir byggingarvísitölu 1. janúar hvers árs.

8. gr. Ágreiningur

Úrskurðarvald um ágreining vegna þessarar samþykktar hefur skipulagsstjóri eða staðgengill hans.

9. gr. Gildistaka

Við gildistöku samþykktar þessarar falla úr gildi „Reglur um útimarkaði og sölutjöld á Akureyri“ sem samþykktar voru í bæjarstjórn 18. maí 1993.

Afgreitt í skipulagsnefnd 29. apríl 2015

Samþykkt af bæjarstjórn 5. maí 2015

 

Fylgiskjöl 1-5

Eyðublað: Ebl 158

Síðast uppfært 17. maí 2017