Umræða um gjaldskrár Akureyrarbæjar í tengslum við fjárhagsáætlun ársins 2023.
Málshefjandi var Hilda Jana Gísladóttir sem lagði fram svofellda bókun:
Framlagðar hugmyndir og tillögur um almennar 10% hækkanir á gjaldskrám Akureyrarbæjar fyrir árið 2023 endurspegla ekki hugmyndir um að gæta sérstaklega hagsmuna barnafjölskyldna og tekjulágra hópa. Þó svo að horft sé til þess að grunngjald leikskóla standi í stað, þá hækkar fæðiskostnaðurinn og þar með heildarreikningur foreldra og forráðamanna. 10% hækkun á fæðisgjaldi í grunnskólum og vistun mun koma harðast niður á efnaminni fjölskyldum. Engar hugmyndir hafa komið fram sem miða að því að hlífa sérstaklega tekjulágum, öldruðum, öryrkjum eða einstæðum foreldrum við skörpum verðhækkunum. Að óbreyttu verður ótækt að samþykkja gjaldskrá Akureyrarbæjar fyrir árið 2023.
Í umræðum tóku einnig til máls Hulda Elma Eysteinsdóttir og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Þá tók til máls Heimir Örn Árnason og lagði fram svofellda bókun:
Engar tillögur liggja fyrir um gjaldskrár enn sem komið er og því algjörlega ótímabært að taka afstöðu til þeirra. Öll útfærsla er eftir en mörg undanfarin ár hefur verið gengið út frá því að gjaldskrá fyrir mat í skólum endurspegli grunnkostnað og sama má segja um frístund. Fræðslu- og lýðheilsuráð mun útfæra leikskólagjöld með þeim hætti að um raunlækkun verði að ræða. Þá hefur velferðarsvið hafið vinnu við að greina umfang fátæktar á Akureyri og í framhaldinu verða lagðar fram tillögur um hvernig megi koma til móts við þá sem búa við bágust kjör.
Þá tóku til máls Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Halla Björk Reynisdóttir, Hilda Jana Gísladótti og Heimir Örn Árnason.
Bæjarráð vísar gjaldskrám Akureyrarbæjar 2022 til afgreiðslu bæjarstjórnar.