Íþróttafélagið Þór - rafíþróttadeild

Málsnúmer 2020020457

Vakta málsnúmer

Frístundaráð - 72. fundur - 19.02.2020

Reimar Helgason framkvæmdastjóri Þórs, Jón Stefán Jónsson íþróttafulltrúi Þórs og Gunnar Örn Gunnarsson varaformaður nýstofnaðrar rafíþróttadeildar Þórs mættu á fundinn og gerðu grein fyrir fyrirhugaðri starfsemi deildarinnar.

Helgi Rúnar Bragason framkvæmdastjóri ÍBA sat fundinn undir þessum lið.
Frístundaráð þakkar fyrir góða kynningu á starfi rafíþróttadeildarinnar.

Frístundaráð - 74. fundur - 25.03.2020

Erindi frá Bjarna Sigurðssyni formanni Rafíþróttadeildar Þórs þar sem óskað er eftir styrk vegna kaupa á búnaði fyrir starfsemi deildarinnar. Stjórn ÍBA tók erindið fyrir á fundi 4. mars 2020.

Helgi Rúnar Bragason framkvæmdastjóri ÍBA sat fundinn undir þessum lið.
Ásrún Ýr Gestsdóttir áheyrnafulltrúi V-lista, Berglind Ósk Guðmundsdóttir D-lista og Viðar Valdimarsson M-lista leggja fram eftirfarandi tillögu:

Frístundaráð samþykkir að styrkja rafíþróttadeild að upphæð 1.600.000 kr. vegna kaupa á búnaði.


Tillagan er felld með atkvæðum Önnu Hildar Guðmundsdóttur L-lista, Arnars Þórs Jóhannessonar S-lista og Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur B-lista.


Anna Hildur Guðmundsdóttir L-lista, Arnar Þór Jóhannesson S-lista og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista leggja fram svohljóðandi tillögu:

Frístundaráð getur ekki orðið við beiðni um styrk vegna kaupa á tölvubúnaði en samþykkir að taka erindið upp við gerð fjárhagsáætlunar 2021.


Frístundaráð lítur svo á að með starfi rafíþróttadeildar sé verið að mæta þörfum ákveðins hóps barna og ungmenna sem eru ekki í neinu íþróttastarfi og því mikilvægt forvarnarstarf sem mun fara fram í deildinni. Frístundaráð hefur nú þegar veitt deildinni styrk í formi húsnæðis en getur ekki orðið við beiðni um styrk vegna kaupa á tölvubúnaði.

Frístundaráð beinir þeim tilmælum til stjórnar ÍBA að ekki verði settar á laggirnar fleiri deildir eða félög um rafíþróttir innan raða ÍBA sbr. aðgerðir í íþróttastefnu Akureyrarbæjar og ÍBA undir kaflanum um samvinnu íþróttafélaga sem segir að aðeins skuli hver íþrótt vera æfð í einu félagi utan handknattleik og knattspyrnu.


Meirihluti frístundaráðs samþykkir tillöguna.

Berglind Ósk Guðmundsdóttir D-lista og Viðar Valdimarsson V-lista greiða atkvæði á móti.


Ásrún Ýr Gestsdóttir áheyrnarfulltrúi V-lista, Berglind Ósk Guðmundsdóttir D-lista og Viðar Valdimarsson M-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar minnihlutans í frístundaráði vilja styðja við og styrkja rekstur rafíþróttadeildar vegna þess hve ríkt forvarnargildi skipulagðar íþróttir hafa. Fullrúar minnihlutans lögðu til að rafíþróttadeild yrði styrkt um 1.600.000 kr., en þar sem því var hafnað hyggst minnihutinn taka málið aftur upp við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2021. Í áliti stjórnar ÍBA um rekstur rafíþróttadeildar er fjallað um jákvæðar afleiðingar af því að halda uppi skipulögðu rafíþróttastarfi, félagsleg einangrun verður rofin og boðið verður upp á líkamlega hreyfingu á öllum æfingum auk þess að iðkendur fái reglulega fræðslu um heilbrigðan lífstíl.

Mikill áhugi á rafíþróttastarfi hefur ekki farið framhjá fulltrúum minnihlutans í frístundaráði og má hér nefna að rafíþróttir hafa hérlendis fengið sjónvarpsstöð helgaða sportinu. Reykjavíkurborg hefur farið þá leið að styrkja rafíþróttadeildir innan íþróttafélaga fjárhagslega í gegnum búnaðarkaup. Það er mikilvægt að reksturinn fari vel af stað, vegna mikils áhuga á rafíþróttagreininni hér í bæ, og að starfið hefjist af krafti um leið og aðstæður í samfélaginu leyfa, jafnvel fyrr með hjálp tækninnar.

Fulltrúar minnihlutans taka undir álit stjórnar ÍBA sem hvetja til reksturs rafíþróttadeildar innan Þórs, en samkvæmt íþróttastefnu Akureyrarbæjar og ÍBA til ársins 2022 er gert ráð fyrir því að hver íþrótt sé aðeins æfð í einu félagi, fyrir utan handknattleik og knattspyrnu, og að félögin verði færri en jafnframt stærri og öflugri.


Frístundaráð - 87. fundur - 16.12.2020

Erindi frá Bjarna Sigurðssyni formanni rafíþróttadeildar Þórs þar sem óskað er eftir styrk vegna kaupa á búnaði fyrir starfsemi deildarinnar.

Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála og Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður ÍBA sátu fundinn undir þessum lið.

Frístundaráð samþykkir að styrkja rafíþróttadeild Þórs um kr. 1.000.000 og verður upphæðin tekin af áætlun 2020.


Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista og Viðar Valdimarsson M-lista lögðu fram eftirfarandi bókun: Við viljum styðja við og styrkja rekstur rafíþróttadeildar vegna þess hve ríkt forvarnagildi skipulagðar íþróttir hafa. Í áliti stjórnar ÍBA um rekstur rafíþróttadeildar er fjallað um jákvæðar afleiðingar af því að halda uppi skipulögðu rafíþróttastarfi, félagsleg einangrun verður rofin og boðið verður upp á líkamlega hreyfingu á öllum æfingum auk þess að iðkendur fái reglulega fræðslu um heilbrigðan lífsstíl.


Mikill áhugi á rafíþróttastarfi hefur ekki farið fram hjá fulltrúum í frístundaráði og má hér nefna að rafíþróttir hafa hérlendis fengið sjónvarpsstöð helgaða sportinu. Það er mikilvægt að reksturinn fari vel af stað, vegna mikils áhuga á rafíþróttagreininni hér í bæ, og að starfið hefjist af krafti um leið og aðstæður í samfélaginu leyfa, jafnvel fyrr með hjálp tækninnar.