Hagahverfi, þjónustukjarni - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2018050096

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 291. fundur - 18.05.2018

Á síðasta fundi skipulagsráðs var fallið frá breytingu varðandi sex íbúða þjónustukjarna á lóðum nr. 1-3 við Nonnahaga. Sviðsstjóri skipulagssviðs leggur til í staðinn að þjónustukjarnanum verði fundinn staður nálægt innkomu í Hagahverfi að sunnan.
Skipulagsráð felur sviðstjóra skipulagssviðs að láta vinna breytingu á deiliskipulagi Hagahverfis á lóðum við innkomu í hverfið að suðaustan til að koma þar fyrir þjónustukjarna.

Skipulagsráð - 293. fundur - 20.06.2018

Á fundi skipulagsráðs 30. maí sl. var sviðsstjóra skipulagssviðs falið að láta vinna breytingu á deiliskipulagi Hagahverfis til að koma fyrir þjónustukjarna við innkomu inn í hverfið að suðaustan. Árni Ólafsson arkitekt hefur unnið tillögu þar sem fram koma fjórir möguleikar á staðsetningu þjónustukjarnans, þ.e. á lóðunum Nonnahaga 19, Steindórshaga 4, Steindórshaga 3 og Nonnahaga 4.
Það er mat skipulagsráðs að lóðin Steindórshagi 4 henti best fyrir þjónustukjarnann og samþykkir að fela sviðsstjóra að láta útbúa deiliskipulagsbreytingu miðað við það í samráði við búsetusvið.

Skipulagsráð - 304. fundur - 14.11.2018

Á fundi skipulagsráðs 20. júní sl. var samþykkt að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að gera breytingu á deiliskipulagi Hagahverfis, í samráði við búsetusvið, til að koma fyrir 6 íbúða fjölbýli (búsetukjarna) á lóðinni Steindórshagi 4. Eftir nánari skoðun er talið að lóðin henti ekki nægjanlega vel fyrir húsið vegna landhalla. Liggur nú fyrir erindi umhverfis- og mannvirkjasviðs dagsett 9. nóvember 2018 þar sem óskað er eftir að í staðinn verði gert ráð fyrir húsinu þar sem nú eru lóðirnar Nonnahagi 21 og 23.
Skipulagsráð samþykkir að heimila umsækjenda að láta útbúa breytingu á deiliskipulagi Hagahverfis í samræmi við fyrirliggjandi erindi. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og ekki er talin þörf á grenndarkynningu þar sem Akureyrarbær er eini hagsmunaaðilinn.

Skipulagsráð - 311. fundur - 13.03.2019

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Hagahverfis sem felur í sér að í stað einbýlishúsalóða við Nonnahaga 21 og 23 er gert ráð fyrir lóð fyrir 6 íbúða fjölbýli.
Skipulagsráð samþykkir deiliskipulagsbreytinguna skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Ekki er talin þörf á grenndarkynningu þar sem ekki er búið að úthluta lóðum á þessu svæði og er Akureyrarbær eini hagsmunaaðilinn.