ÖA - breyting á skammtímarými í dagþjálfunarrými

Málsnúmer 2018030309

Vakta málsnúmer

Velferðarráð - 1274. fundur - 21.03.2018

Lögð fram stutt samantekt og tillaga um að kanna möguleika þess að breyta hluta af hjúkrunarrýmum ÖA í skammtíma-/hvíldardvöl, í sérhæfð og almenn dagþjálfunarrými.

Helga Erlingsdóttir hjúkrunarforstjóri ÖA sat fundinn undir þessum lið.
Velferðarráð felur Halldóri S. Guðmundssyni framkvæmdastjóra ÖA að fara í nánari skoðun og viðræður við velferðarráðuneytið, með að útfæra, að breyta 7-10 hjúkrunarrýmum í tímabundinni dvöl í 20-28 dagþjálfunarrými og koma þannig til móts við þarfir fleiri einstaklinga. Lögð verði áhersla á að um sé að ræða tímabundna breytingu til tveggja til fjögurra ára.

Velferðarráð - 1277. fundur - 02.05.2018

Framkvæmdastjóri ÖA, Halldór S. Guðmundsson, lagði fram til kynningar bréf til velferðarráðuneytis þar sem óskað er viðræðna um nýsköpunar- og þróunarverkefni þar sem rýmum í tímabundinni dvöl verði breytt í dagþjálfunarrými.

Velferðarráð - 1281. fundur - 08.08.2018

Framkvæmdastjóri ÖA, Halldór S. Guðmundsson, greindi frá framvindu og vinnu við undirbúning að samkomulagi við velferðarráðuneytið um nýsköpunar- og þróunarverkefni þar sem rýmum í tímabundinni dvöl verði breytt í dagþjálfunarrými.

Málið var áður á dagskrá velferðarráðs þann 21. mars og 2. maí sl. sbr. einnig endurteknar umfjallanir um þróunarverkefni síðustu tveggja ára sem nánar er greint frá í skýrslum á heimasíðu ÖA.

Um er að ræða þróunarverkefni sem felur í sér fjölgun rýma í dagþjálfun um 20-25 og breyttar áherslur m.a. á hæfingu og þjálfun, sveigjanlegan og lengri opnunartíma eins og á rauðum dögum og um helgar.

Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA og Ingunn Eyjólfsdóttir félagsráðgjafi ÖA sátu fundinn undir þessum lið.
Velferðarráð þakkar góða kynningu og lýsir ánægju sinni með verkefnið.

Velferðarráð - 1283. fundur - 05.09.2018

Framkvæmdastjóri ÖA, Halldór S. Guðmundsson, sat fundinn undir þessum lið og greindi frá viðræðum og stöðu mála við velferðarráðuneytið um nýsköpunar- og þróunarverkefnið "Samfélagshjúkrun í dagþjálfun" sem verið hefur til skoðunar og nánari útfærslu síðan í apríl/maí. Verkefnið varðar að allt að 10 rými í tímabundinni dvöl/hvíldardvöl verði nýtt sem breytileg úrræði á sviði dagþjálfunar.

Velferðarráð - 1286. fundur - 03.10.2018

Helga Erlingsdóttir hjúkrunarforstjóri ÖA sat fundinn undir þessum lið og kynnti í stuttu máli framvindu og vinnu við undirbúning nýsköpunar og þróunarverkefnis um að fjölga dagþjálfunarrýmum í Austurhlíð frá næstu áramótum.

Velferðarráð - 1292. fundur - 09.01.2019

Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA sat fundinn undir þessum lið og lagði fram bréf velferðarráðuneytisins dagsett 2. október 2018 sem barst framkvæmdastjóra 12. desember 2018, varðandi nýsköpunar- og þróunarverkefni á sviði öldrunarþjónustu á Akureyri, þar sem Sjúkratryggingum Íslands er falið að ganga frá samningi við ÖA um almenn og sértæk dagdvalarrými með lengdum opnunartíma.

Framkvæmdastjóri greindi einnig frá framvindu og undirbúningi að því að breytt starfsemi hefjist, sem áætlað er að verði um miðjan janúar 2019.

Áður á dagskrá 1. október og 18. desember 2018.

Laufey Þórðardóttir settur sviðsstjóri búsetusviðs sat fundinn undir þessum lið.

Velferðarráð - 1295. fundur - 20.02.2019

Nýsköpunar- og þróunarverkefni í dagþjálfun og þjónustu við aldraða, hófst í byrjun febrúar að undangengnum undirbúningi og fræðslu starfsmanna sem og undirbúningsfundum með nokkrum helstu samstarfsaðilum.

Verkefnið sem unnið er í samstarfi og með heimild heilbrigðisráðuneytis, er nýjung í þjónustunni hjá Akureyrarbæ og mikilvægur þáttur þess er að upplýsa og vinna með viðhorf til þjónustunnar. Af því tilefni efnir ÖA til opins dags þar sem bæjarbúum, samstarfsaðilum og öðrum áhugasömum aðilum er boðið til kynningardags þar sem nýja verkefnið og áherslur í starfsemi dagþjálfunar verða kynntar ásamt öðrum þáttum starfseminnar. Þá verður tímabundin dvöl kynnt ásamt iðju- og félagsstarfi sem tengist dagþjálfun og nokkrum af þeim velferðartæknilausnum sem notaðar verða í nýsköpunar- og þróunarverkefninu.

Framkvæmdastjóri ÖA, Halldór S. Guðmundsson, kynnti málið og dagskrá dagsins.
Halldór S. Guðmundsson býður velferðarráð formlega velkomið á opið hús sem haldið verður þann 22. febrúar.