Sveitarstjórnarkosningar 26. maí 2018

Málsnúmer 2018020099

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3593. fundur - 05.04.2018

Lögð fram tillaga um launasetningu undir- og yfirkjörstjórna vegna vinnu við sveitarstjórnarkosningarnar.
Bæjarráð samþykkir framkomna tillögu.

Bæjarráð - 3595. fundur - 18.04.2018

Lagt fram erindi dagsett 10. apríl 2018 frá formanni kjörstjórnar Akureyrar vegna komandi sveitarstjórnarkosninga þann 26. maí nk. Þar kemur fram tillaga kjörstjórnar um að Akureyrarkaupstað verði skipt í tólf kjördeildir, tíu á Akureyri, ein í Hrísey og ein í Grímsey. Lagt er til að á Akureyri verði kjörstaður í Verkmenntaskólanum á Akureyri, í Hrísey verði kjörstaður í Hríseyjarskóla og að í Grímsey verði kjörstaður í Grímseyjarskóla. Lagt er til að tveir kjörklefar verði í hverri kjördeild á Akureyri, í Hrísey og í Grímsey. Þá hefur kjörstjórn enn fremur ákveðið að leggja til við bæjarráð að kjörfundur standi frá klukkan 09:00 til 22:00 á Akureyri, í Hrísey og í Grímsey. Óskar kjörstjórn eftir því við bæjarráð að ofangreindar tillögur verði samþykktar.
Bæjarráð samþykkir tillögur kjörstjórnar Akureyrar.

Bæjarstjórn - 3434. fundur - 08.05.2018

Lagður fram listi með nöfnum þrjátíu og sex aðalmanna og þrjátíu og sex varamanna í undirkjörstjórnir við sveitarstjórnarkosningarnar þann 26. maí nk.
Bæjarstjórn samþykkir þær tilnefningar sem fram koma á listanum með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarstjórn - 3434. fundur - 08.05.2018

Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:

Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að ganga frá og undirrita kjörskrá vegna sveitarstjórnarkosninga 26. maí nk. í samræmi við 7. gr laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Jafnframt er bæjarstjóra veitt fullnaðarheimild til að fjalla um athugasemdir við kjörskrá, gera nauðsynlegar leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem kunna að koma fram að kjördegi í samræmi við 10 gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarstjórn - 3436. fundur - 12.06.2018

Lögð fram greinargerð kjörstjórnar Akureyrar dagsett 31. maí vegna sveitarstjórnarkosninga 26. maí sl.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson las upp greinargerð kjörstjórnar svohljóðandi:


Akureyri, 31. maí 2018.


Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar

Geislagötu 9

600 Akureyri


Efni: Greinargerð kjörstjórnar vegna sveitarstjórnarkosninga 2018.


Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 5/1998 er nýkjörinni bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar hér með send greinargerð kjörstjórnarinnar á Akureyri vegna nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga.


Kjörstjórn kom fyrst saman föstudaginn 23. mars 2018, á skrifstofu sýslumanns til að innsigla kjörkassa, þar sem afgreiðsla utankjörfundaratkvæða skyldi hefjast 31. mars. Alls hélt kjörstjórn 16 formlega fundi vegna kosninganna, en með bréfi þessu telst störfum kjörstjórnar hinsvegar formlega lokið.


Úrslit kosninganna voru þau að:

B-listi Framsóknarflokksins hlaut 1530 atkvæði og tvo menn kjörna.

D-listi Sjálfstæðisflokksins hlaut 1998 atkvæði og þrjá menn kjörna.

L-listi L-listans, lista fólksins hlaut 1828 atkvæði og tvo menn kjörna.

M-listi Miðflokksins hlaut 707 atkvæði og einn mann kjörinn.

P-listi Pírata hlaut 377 atkvæði og engan mann kjörinn.

S-listi Samfylkingarinnar hlaut 1467 atkvæði og tvo menn kjörna.

V-listi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hlaut 820 atkvæði og einn mann kjörinn.


Alls kusu á kjörstað 7922 kjósendur og utan kjörfundar kusu 1161 kjósendur, eða alls 9083 sem gerir 66,29% kjörsókn, en á kjörskrá voru á kjördag 13702 kjósendur i Akureyrarkaupstað. Auðir atkvæðisseðlar voru 319 og ógildir voru 37.


Kjörfundur í Akureyrarkaupstað gekk vel, en kosið var á þremur stöðum í sveitarfélaginu, á Akureyri og í Hrísey og í Grímsey. Kjörfundur hófst klukkan 9:00 og lauk honum klukkan 22:00, en talningu atkvæða var lokið klukkan 02:30.


Kjörstjórn þakkar starfsmönnum Akureyrarbæjar, undirkjörstjórnum, talningarfólki sem og öðrum þeim sem að kosningunum komu vel unnin störf í þágu bæjarfélagsins og óskar að lokum nýkjörinni bæjarstjórn velfarnaðar í störfum sínum.


F. h. kjörstjórnarinnar á Akureyri,

Helga Eymundsdóttir


Að þessu loknu bauð Guðmundur Baldvin Guðmundsson bæjarfulltrúa velkomna til starfa og greindi jafnframt frá því að gengið hefði verið frá samkomulagi um meirihlutasamstarf Framsóknarflokks, Samfylkingar og L-lista og að samkomulagið yrði kynnt og tekið til umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar, þann 26. júní nk.