Trúnaðarmál.

Málsnúmer 2015050149

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3459. fundur - 21.05.2015

Trúnaðarmál
Afgreiðsla bæjarráðs færð í trúnaðarmálabók bæjarráðs.

Bæjarráð - 3491. fundur - 21.01.2016

Afgreiðsla bæjarráðs færð í trúnaðarmálabók bæjarráðs.

Bæjarráð - 3525. fundur - 13.10.2016

Umræður um sölu hlutabréfa Akureyrarbæjar í Tækifæri hf.

Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri Akureyrarbæjar, Hólmgrímur Bjarnason og Aðalsteinn Sigurðsson endurskoðendur frá Deloitte ehf og bæjarfulltrúarnir Ingibjörg Ólöf Isaksen B-lista og Njáll Trausti Friðbertsson D-lista sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Ingibjörg Ólöf Isaksen og Njáll Trausti Friðbertsson véku af fundi kl. 09:50 áður en bókun var afgreidd. Dan Jens Brynjarsson vék af fundi kl. 10:35.
Bæjarráð leggur fram eftirfarandi bókun/yfirlýsingu vegna sölu á hlutabréfum í Tækifæri hf.

Bæjarráð ákvað á fundi sínum þann 21. janúar sl. að ganga að kauptilboði KEA í eignarhlut bæjarins í Tækifæri hf. Það upplýsist hér með formlega að um var að ræða hlutafé að nafnvirði kr. 116.408.129 og var tilboðsfjárhæðin 116 milljónir króna en eignarhlutur bæjarins í Tækifæri hf. var bókaður á kr. 86.878.287 í ársreikningi Akureyrarbæjar fyrir árið 2014. Var málið fært í trúnaðarbók og var bæjarstjóra falið að undirrita kauptilboðið.

Ákvörðun um að færa málið í trúnaðarbók byggðist á kröfu KEA um trúnað. Aldrei stóð til af hálfu bæjarráðs að viðhafa leynd vegna þessara viðskipta. Eftir á að hyggja hefði verið rétt að létta formlega trúnaði af málinu um leið og kauptilboðið var undirritað. Ljóst má vera að skýra þarf betur hvernig fara á með mál sem tímabundið kunna að vera færð í trúnaðarbók. Mun bæjarráð setja, í kjölfar þessa máls, skýrar reglur um meðferð mála sem færð eru í trúnaðarbók.

Í framhaldi af samþykki Akureyrarbæjar á kauptilboði KEA var öðrum hluthöfum í Tækifæri hf. boðið að nýta forkaupsrétt í samræmi við lög og nýtti Íslensk verðbréf hf. sinn forkaupsrétt. Endanleg sala á eignarhluta Akureyrarbæjar skiptist því þannig að KEA keypti 88,7% á kr. 102.843.851 og Íslensk verðbréf keyptu 11,3% á kr. 13.156.149.

Bæjarráð viðurkennir að það voru mistök að fara ekki með hlutabréfin í Tækifæri hf. í opið söluferli. Eftir á að hyggja var engin ástæða til að samþykkja kröfu KEA um trúnað vegna tilboðs fyrirtækisins í bréfin. KEA hefði alltaf á grundvelli forkaupsréttar getað gengið inn í hæsta tilboð eða gert opinbert tilboð í bréfin. Hvort opið söluferli hefði leitt til þess að hærra verð hefði fengist fyrir bréfin er óvíst, en ferlið hefði þá verið gagnsætt alla leið sem er mikilvægt.

Bæjarráð leggur áherslu á að við ákvörðun um söluna voru hagsmunir bæjarbúa hafðir að leiðarljósi. Lengi hefur verið vilji til að skoða sölu á hlut bæjarins í félaginu, með það að markmiði að nýta betur þá fjármuni sem bundnir hafa verið í félaginu í aðrar fjárfestingar. Í því sambandi hefur m.a. verið horft til frumkvöðlaseturs í eigu bæjarins.

Við mat á tilboðsfjárhæð var stuðst við álit og mat fjármálstjóra bæjarins sem þekkti vel til reksturs félagsins eftir áralanga setu í stjórn þess. Matið byggði fjármálastjórinn á ársuppgjöri Tækifæris hf. fyrir árið 2014. Vitað var að rekstur Baðfélags Mývatnssveitar ehf., sem er ein helsta eign Tækifæris hf. hafði gengið vel á árinu 2015 og framtíðarhorfur þess væru bjartar en mikil fjárfestingaþörf er framundan hjá félaginu.

Síðustu viðskipti sem vitað var um með bréf í Tækifæri hf. voru frá desember 2013 þegar KEA keypti eignarhluta Íslandsbanka hf., Arion banka hf., LBI hf. og Glitnis hf. á genginu 0,495. Þá bauðst Akureyrarbæ að nýta forkaupsrétt sinn sem var hafnað.

Ekkert formlegt verðmat frá utanaðkomandi aðila var framkvæmt á Tækifæri hf. í tengslum við tilboð KEA en forsvarsmenn KEA höfðu lagt fram sína nálgun á verðmæti Baðfélags Mývatnssveitar sem var helsti óvissuþáttur varðandi verðmat á Tækifæri hf. Var það því mat bæjarráðs á þeim tíma að ekkert benti til annars en að þær upplýsingar sem þá lágu fyrir væru fullnægjandi og samþykkti bæjarráð samhljóða tilboð kaupanda. Mistök bæjarráðs eru ekki síst þau að hafa ekki óskað eftir formlegu verðmati á heildareignum Tækifæris hf.

Í kjölfar sölu Akureyrarbæjar hafa nánast öll sveitarfélög sem hlut áttu í Tækifæri hf á þessum tíma, selt sinn hlut á sama verði og Akureyrarbær seldi sín bréf á.

Í kjölfar sölu bréfanna komu fram upplýsingar sem bentu til þess að virði bréfanna kynni að vera eitthvað hærra en í áðurnefndum viðskiptum. Í ársreikningi Tækifæris hf. 2015 dags 26. apríl kemur fram að eigið fé félagsins í árslok 2015 sé 988,5 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en var í árslok 2014 604,3 millj. kr. Hækkun milli ára tæp 39%. Verðmæti bæjarins á 15.22 % hlutur hefði því með réttu átt að endurspeglast í bættri afkomu félagsins og góðum vexti þess. Bæjarráð fól bæði lögmanni bæjarins og síðar utanaðkomandi lögfræðingi að kanna hvort upplýsingum hafi verið leynt og hvort bærinn gæti rift sölunni. Niðurstaða þeirra er að svo sé ekki.

Í umræðu um söluna hefur hæfi formanns bæjarráðs verið dregið í efa. Þegar tilboðið og salan var tekin fyrir í bæjarráði kom hæfi formanns til umræðu og var það mat lögmanns bæjarins og bæjarráðs að ekki væri um að ræða vanhæfi í þessu máli. Til að taka af allan vafa var kallað eftir áliti lögfræðings Sambands íslenskra sveitararfélaga og styður álit hans það mat.