Áform um sameiningu heilbrigðisstofnana innan heilbrigðisumdæma

Málsnúmer 2013090290

Vakta málsnúmer

Félagsmálaráð - 1172. fundur - 09.10.2013

Karl Guðmundsson framkvæmdastjóri HAK kynnti bréf þar sem sveitarfélaginu var gefinn kostur á að tjá sig um áform um sameiningu og óskað eftir að athugasemdir eða ábendingar berist eigi síðar en 15. október 2013.

Akureyrarbær hefur rekið HAK síðan 1997 og á þeim tíma hefur mikið og náið samstarf þróast á milli félagsþjónustu bæjarins og heilsugæslustöðvarinnar. Samvinnan hefur haft í för með sér mikinn ávinning fyrir bæjarbúa og nærsveitarfólk.

Mjög áríðandi er að núverandi samstarf HAK og félagsþjónustu Akureyrarbæjar geti haldið áfram í óbreyttri mynd.

Akureyrarbær er tilbúinn til að reka heilsugæslustöðina áfram ef fjárveitingar til hennar verða samræmdar fjárveitingum til heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en til þess að svo sé vantar tugi milljóna í dag.

Bæjarráð - 3384. fundur - 10.10.2013

Lagt fram erindi dags. 25. september 2013 frá velferðarráðuneytinu varðandi áform um sameiningu heilbrigðisstofnana innan heilbrigðisumdæma.
Sveitarfélaginu er gefinn kostur á að tjá sig um áform um sameiningu og er óskað eftir að athugasemdir eða ábendingar berist eigi síðar en 15. október nk.

Ef af sameiningaráformum verður er einsýnt að heilsugæslan mun flytjast af hendi Akureyrareyrarbæjar til sameiginlegrar stofnunar sem rekin verður af ríki.

Bæjarráð vill benda á að mikil og dýrmæt reynsla sem og ávinningur hefur orðið á samvinnu milli heilsugæslunnar, fjölskyldudeildar og búsetudeildar, varðandi sameiginleg málefni sem mikilvægt er að tapist ekki. Þá er ljóst að fjárhagslegt uppgjör þarf að eiga sér stað milli bæjarins og ríkis þegar og ef að samningslokum verður.