Vatnsaflsvirkjun í Glerárdal - svar við fyrirspurn

Málsnúmer 2010030142

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3261. fundur - 17.02.2011

Lagt fram til kynningar svar Fallorku ehf dags. 10. febrúar 2011 við fyrirspurn Ólafs Jónssonar D-lista sem hann bar upp undir liðnum önnur mál í bæjarráði þann 11. nóvember sl.

Bæjarráð - 3261. fundur - 17.02.2011

Erindi dags. 11. febrúar 2011 frá Fallorku ehf. Óskað er eftir að Akureyrarbær taki afstöðu til breytingar á aðal- og deiliskipulagi Glerárdals og hefji þá vinnu með það fyrir augum að Fallorku ehf verði heimilað að reisa þar um 2,0 MW vatnsaflsvirkjun.

Bæjarráð frestar afgreiðslu.

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir V-lista óskar bókað:

Um leið og Vinstri hreyfingin grænt framboð fagnar áformum um virkjun "bæjarlækjarins" á Akureyri leggjum við mikla áherslu á að unnið verði að deiliskipulagi sem nær til alls Glerárdals sem útivistarsvæðis og náttúruperlu en ekki verði eingöngu miðað við skipulag sem lýtur að tiltekinni virkjun.

Bæjarráð - 3265. fundur - 10.03.2011

Tekið fyrir að nýju, bæjarráð frestaði afgreiðslu á fundi sínum þann 17. febrúar sl. erindi dags. 11. febrúar 2011 frá Fallorku ehf, þar sem óskað er eftir að Akureyrarbær taki afstöðu til breytingar á aðal- og deiliskipulagi Glerárdals og hefji þá vinnu með það fyrir augum að Fallorku ehf verði heimilað að reisa þar um 2,0 MW vatnsaflsvirkjun.

Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri og Jón Bragi Gunnarsson hagsýslustjóri viku af fundi undir þessum lið vegna stjórnarsetu í Fallorku ehf.

Bæjarráð telur ekki ástæðu til að ráðast í virkjun í Glerá að svo stöddu og samþykkir með 3 atkvæðum gegn atkvæði Ólafs Jónssonar D-lista að hafna erindinu.

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir V-lista óskar bókað:

Á fundi bæjarráðs þann 17. febrúar 2011 fagnaði áheyrnarfulltrúi VG hugmyndum um virkjun í Glerá. Við bæjarbúar eigum orkulind í bakgarðinum og það samræmist hugmyndum um sjálfbærni samfélags að virkja eigin orku og taka þannig ábyrgð á rafmagnsnotkun okkar. Það teljum við rök í umræðunni en vissulega ekki þau einu. Ef sérstæð náttúra Glerárgils er í húfi hefur hún vissulega jafnmikið vægi í umræðunni og skal ávallt njóta vafans séu umhverfisáhrif neikvæð eða jafnvel óljós.

Þær rýru upplýsingar sem kjörnir fulltrúar hafa í höndunum varðandi áhrif virkjunarinnar á vatnsbúskap Glerár, útfærslu mannvirkja og um náttúrufar á svæðinu eru engan veginn fullnægjandi til þess að hægt sé að taka svo stóra ákvörðun sem hér liggur fyrir. Þá er algjört grundvallaratriði að fyrir liggi hvernig umhverfismati skuli háttað á svæðinu sem um ræðir.

Aðalinntak fyrrnefndrar bókunnar frá 17. febrúar sl. var ákall eftir því að hugað sé að skipulagi Glerárdals alls sem útivistarsvæðis og náttúruperlu. Vinstri hreyfingin grænt framboð kallar hér eftir því að stefnumótun um Glerárdal allan liggi fyrir þótt deiliskipulag sé hugsanlega ekki tilbúið. Einnig að lagðar verði fram formlegar tillögur um það hvernig aðalskipulagi verði breytt þannig að þar komi fram skýr stefnumótun um Glerárdal og útfærslu raflínunnar sem fyrirhuguð er frá Akureyri að Kröflu.

Hermann Jón Tómasson S-lista og Anna Hildur Guðmundsdóttir A-lista óska bókað:

Við teljum eðlilegt að þetta mál fái umræðu og afgreiðslu í fagnefndum en ekki aðeins í bæjarráði. Í viðkvæmu máli sem þessu er þarft að vanda málsmeðferðina og tryggja að mismunandi sjónarmið og rökstuðningur fyrir þeim fái nauðsynlega umræðu innan stjórnkerfis bæjarins áður en ákvörðun er tekin um afgreiðslu erindisins. Þess vegna lýsum við óánægju okkar með málsmeðferðina.

Ólafur Jónsson D-lista óskar bókað:

Ég tel virkjun í efri hluta Glerár vænlegan kost og tel eðlilegt í ljósi nýrra arðsemisútreikninga Fallorku ehf að þessi virkjunarkostur verði skoðaður frekar. Ég lýsi því yfir ákveðnum vonbrigðum mínum að málið verði ekki skoðað frekar af hálfu bæjarins.

Umhverfisnefnd - 58. fundur - 30.03.2011

Petrea Ósk Sigurðardóttir Framsóknarflokki og Valdís Anna Jónsdóttir Samfylkingu óska að eftirfarandi sé bókað:

Við lýsum yfir mikilli óánægju með að málefni Fallorku, vegna virkjunar í Glerárdal, skuli ekki
hafa borist umhverfisnefnd til umsagnar. Við teljum eðlilegt að þetta mál hefði fengið umræðu og afgreiðslu í fagnefndum bæjarins en ekki eingöngu í bæjarráði. Mikilvægt er að skoða málið frá öllum hliðum til að tryggja að mismunandi sjónarmið og rökstuðningur fái umræðu innan stjórnkerfis bæjarins áður en ákvörðun er tekin.

Bæjarstjórn - 3320. fundur - 08.05.2012

Bæjarfulltrúi Ólafur Jónsson D-lista óskaði eftir að tekin yrði til umræðu virkjun í efri hluta Glerár.
Almennar umræður um málið.