Bæjarstjórn

3324. fundur 29. ágúst 2012 kl. 14:00 - 14:35 Hof
Starfsmenn
 • Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar
 • Hlín Bolladóttir
 • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
 • Halla Björk Reynisdóttir
 • Oddur Helgi Halldórsson
 • Inda Björk Gunnarsdóttir
 • Tryggvi Þór Gunnarsson
 • Andrea Sigrún Hjálmsdóttir
 • Logi Már Einarsson
 • Ólafur Jónsson
 • Sigurður Guðmundsson
 • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
Dagskrá
Hátíðarfundur í tilefni 150 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar.

1.Heiðursviðurkenning Akureyrar

Málsnúmer 2012080080Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að samþykkt um Heiðursviðurkenningu Akureyrar.
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 23. ágúst sl. tillögu um þá einstaklinga sem hljóta skulu Heiðursviðurkenningu Akureyrar í fyrsta sinni í tilefni af afmæli bæjarins á yfirstandandi ári. Nöfn heiðursviðurkenningarhafa eru færð í trúnaðarbók bæjarráðs og verður upplýst um þau að loknum þessum hátíðarfundi bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að setja á fót Heiðursviðurkenningu Akureyrar og samþykkir einnig framangreinda tillögu bæjarráðs um hverjir skuli hljóta viðurkenningu að þessu sinni.

2.Glerárdalur - fólkvangur

Málsnúmer 2012080081Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um að Glerárdalur verði gerður að fólkvangi.

Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að stefnt skuli að því að hluti Glerárdals verði skilgreindur sem fólkvangur í samræmi við lög um náttúruvernd nr. 44/1999, gr. 55.

Bæjarstjórn samþykkir einnig með 11 samhljóða atkvæðum að gerð verði tillaga til Umhverfisstofnunar um mörk og nýtingarmöguleika fólkvangsins og gerð grein fyrir þeim takmörkunum sem ákvörðun um fólkvang kann að setja Akureyrarbæ sem rétthafa landsvæðisins.

3.Umhverfisátak

Málsnúmer 2012080082Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um að setja ákveðna upphæð árlega í umhverfisátak næstu fimm árin. Hugsað í göngu- og hjólastíga, leikvelli og annað sem gerir umhverfið fallegra.

Í tilefni 150 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar samþykkir bæjarstjórn með 11 samhljóða atkvæðum að veita allt að hálfum milljarði (500 milljónum króna) í sérstakt umhverfisátak.

Árlega verða settar allt að 100 milljónir króna í þetta sérstaka átak.

Fjárveitingin er ætluð til nýframkvæmda og stofnbúnaðarkaupa á málum sem fyrst og fremst tengjast umhverfismálum í sveitarfélaginu öllu (og einstaka deildum þess) s.s. endurgerð og nýframkvæmd leikvalla, gerð göngu- hjóla- og reiðstíga, fegrun og frágang opinna svæða og torga, skógrækt, grisjun, endurgerð og endurplöntun, frágangi og gerð fólkvanga/útivistarsvæða.

Framkvæmdaráð skal hafa eftirlit með fjárveitingu hvers árs.

Framkvæmdadeild mun gera tillögur að verkefnum og kostnaðarmeta þær. Við gerð framkvæmdaáætlunar hvers árs skal framkvæmdaráð endanlega samþykkja þær framkvæmdir og stofnbúnaðarkaup sem fara á í á ári hverju.

Umhverfisnefnd gerir tillögur til framkvæmdaráðs um einstaka verkefni er lúta að hennar verksviði sbr. samþykkt umhverfisnefndar.

Öðrum nefndum og ráðum er frjálst að koma með tillögur til framkvæmdaráðs.

Fundi slitið - kl. 14:35.