Vika barnsins - sjónarmið ungmenna

Páll Rúnar Bjarnason, fulltrúi í ungmennaráði.
Páll Rúnar Bjarnason, fulltrúi í ungmennaráði.

Í tilefni af viku barnsins á Akureyri, sem hófst í dag, birtum við hér á heimasíðunni tvær aðsendar greinar frá fulltrúum í ungmennaráði bæjarins. Páll Rúnar Bjarnason fjallar um geðheilbrigðisþjónustu við ungmenni og Gunnborg Petra Jóhannsdóttir fjallar um samráð við ungmenni í tengslum við skipulagsmál.

Gefum þeim orðið: 

Geðheilbrigðisþjónusta við ungmenni

Íslensk ungmenni eru í mikilli hættu fyrir skammdegisþunglyndi. Stutta sólarljósið hefur of mikil áhrif. Það mætti innleiða sólar lampa í alla grunnskóla til að hjálpa við að berjast á móti skammdegisþunglyndi. Miðað við þessar aðstæður mætti halda að geðheilbrigðiskerfið væri gott fyrir ungmenni. Því miður er það ekki svo.

Að komast inná BUGL er mjög erfitt ef maður er ekki að deyja úr átröskun eða hefur reynt að fremja sjálfsvíg. Það er ennþá erfiðara fyrir þá sem búa ekki á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem búa ekki á höfuðborgarsvæðinu þurfa að ferðast slatta bara til að fá nauðsynlega hjálp, það er að segja ef þeir fær hjálp. Þegar ég var 17 ára ætlaði ég mér að stökkva fram af brú. Það var fyrir algjört kraftaverk að ég fann styrkinn til að fara frá brúnni. Þegar ég fór til geðlæknis viku seinna, sem var einkarekinn, sagði hann að þeir tímdu ekki að sækja um hjá BUGL, þegar ég var á versta stað lífs míns.

Ég þurfti að halda áfram með lífið nánast eins og ekkert hafi gerst þar sem ég hafði ekki aðgang að hjálpinni sem ég þurfti á að halda. Það var ekki fyrr en um hálfu ári seinna þegar ég var orðinn ennþá verri að geðlæknirinn minn ákvað að prófa að sækja um fyrir mig á fullorðins geðdeildinni. Þetta var í lok árs og ég á afmæli snemma á árinu. Ég fékk fljótlega forviðtal. Frá því var ég beðinn um að koma aftur eftir helgi og taka stöðuna þá. Eftir helgina var ég strax lagður inn á fullorðins geðdeildina. Ég lýsti bara venjulegum degi hjá mér og það var víst nóg til að leggja mig inn.

Meðan ég var á geðdeildinni fékk ég hjálp sem ég hafði ekki fengið áður. En ég var þarna lang yngstur. Næsti mér í aldri var um 30 ára. Það var mjög óþægilegt, ég var mjög einmanna þar sem ég hafði engan á mínum aldri. Ég var ekki einu sinni orðinn 18 ára. Það þarf virkilega að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu fyrir ungmenni hér á Akureyri. Það mætti bæta við annarri geðdeild fyrir ungmenni, kannski fyrir 16 til eitthvað um 20 svo þar sé fólk á svipuðum aldri. Það myndi hjálpa okkur að líða betur inná geðdeild. Ungmenni þyrftu ekki að vera einmana í kringum vel fullorðið fólk meðan þau eru varla fullorðin. Það er óásættanlegt að þetta viðgangist.

Páll Rúnar Bjarnason
Fulltrúi í ungmennaráði Akureyrar

 

Skipulagsmál á Oddeyrinni

Nú er í umræðunni að það eigi að byggja stórt hús á Oddeyrinni. Við í Ungmennaráðinu fengum kynningu á framtíðarsýn þessarar byggingar og á skipulagsmálum almennt.

Auðvitað á að leggja fyrir ungmennaráð öll svona skipulagsmál. Hvort sem það er að byggja leikskóla, skóla, íbúðir eða stór hús. Þessi mál snerta ekki bara fullorðna, heldur okkur unga fólkið líka. Jafnvel meira en fullorðna fólkið. Það erum við sem tilheyrum framtíðinni sem er verið að skipuleggja, það erum við sem munum kaupa okkur íbúðir í þessum húsum, setja börnin okkar í þessa leikskóla og skóla. Ekki þið.

Það er því eðlilegt að öll mál séu borin undir ungmennaráð og að við fáum að hafa áhrif á uppbyggingu okkar eigin sveitarfélags.

Gunnborg Petra Jóhannsdóttir
Fulltrúi í ungmennaráði Akureyrar

Gunnborg Petra Jóhannsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan