Veðrið og há sjávarstaða á Eyrinni

Oddeyrin fyrr í dag. Mynd: Andrés Rein Baldursson.
Oddeyrin fyrr í dag. Mynd: Andrés Rein Baldursson.

Neyðarstjórn Norðurorku kom saman fyrr í dag til að fara yfir stöðu mála í tengslum við veðrið sem gekk yfir svæðið fyrir hádegið. Farið var yfir ástand og virkni kerfa og mannafla á vettvangi.

Rafmagnslaust varð um tíma sem rekja má til atviks í flutningskerfinu/byggðalínu og þar með varð straumlaust í dreifikerfi Norðurorku á Akureyri. Varaafl fyrirtækisins, þar með talið í fráveitukerfinu, kom inn og hélt þannig uppi lágmarks afköstum þann tíma sem rafmagnslaust var.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var vatnsstaða mjög há á Eyrinni og þar gekk sjór á land á háflóði um hádegisbil. Eins og áður segir þá starfaði fráveitukerfið á svæðinu eðlilega, miðað við venjubundinn rekstur en ljóst er að aðstæður sem þarna sköpuðust voru mjög óvenjulegar og sem betur fer mjög fátíðar. Ekkert fráveitukerfi er hannað til að ráða við aðstæður sem þessar þegar sjór gengur á land.

"Það er auðvitað erfitt að sætta sig við að svona nokkuð geti gerst. Það er ógjörningur að stjórna veðurfarslegum aðstæðum en við verðum að skoða vandlega hvað er hægt að gera til að varna því að sjór flæði svona yfir Oddeyrina, valdi tjóni og eignarspjöllum. Ég vil sérstaklega þakka öllum þeim sem brugðust skjótt við og gerðu það sem hægt var til að lágmarka tjónið," segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri.

Norðurorka stefnir að því að fara yfir málin með Akureyrarbæ svo fljótt sem verða má í því skyni að leita leiða til að lágmarka hættu á tjóni vegna atburða sem þessa til framtíðar.

Myndirnar að neðan tók Andrés Rein Baldursson á Oddeyri í dag. Smellið á myndirnar til að sjá stærri útgáfur og fletta á milli þeirra.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan