Varúðarráðstafanir vegna COVID-19

Launadeild bæjarins í Ráðhúsi hefur verið lokað tímabundið fyrir gestum og gangandi.
Launadeild bæjarins í Ráðhúsi hefur verið lokað tímabundið fyrir gestum og gangandi.

Akureyrarbær hefur gripið til nokkurra ráðstafana til að bregðast við COVID-19 faraldrinum. Er þetta einungis gert í varúðarskyni, enda þótt ekkert smit hafi enn verið staðfest á Akureyri er mikilvægt að hafa varann á og standa vörð um mikilvæga starfsemi og þjónustu bæjarins, einkum við fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma.

Stjórnendur bæjarins vinna nú að uppfærslu á viðbragðsáætlunum í samráði við almannavarnir og landlækni. Fylgst er vel með öllum nýjustu tíðindum og ábendingum sérfræðinga og er staðan, eins og hún blasir við sveitarfélaginu, metin daglega.

Líkt og tilkynnt var um helgina eru Öldrunarheimili Akureyrar lokuð fyrir heimsóknum gesta þar til annað hefur verið tilkynnt. Var þetta ákveðið að höfðu samráði við sóttvarnalækni og landlækni eftir að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir.

Nú hefur einnig verið ákveðið að loka tímabundið launadeildinni í Ráðhúsi fyrir gestum og gangandi. Er þetta gert til að tryggja öryggi starfsfólks og koma í veg fyrir röskun á þessari mikilvægu starfsemi sveitarfélagsins. Þá hefur einnig verið ákveðið að loka skrifstofum búsetusviðs, Glerárgötu 26, og vernda þannig viðkvæma hópa sem sviðið veitir þjónustu.

Uppfært 12/3: Fjölskyldusvið hefur einnig gert ráðstafanir vegna COVID-19. Plastiðjan Bjarg - Iðjulundur og hæfingarstöðin Skógarlundi, sem eru vinnustaðir fyrir fatlað fólk, eru lokaðir fyrir óviðkomandi. Enn fremur hefur verið ákveðið að þjónusta fjölskyldusviðs í Glerárgötu 26 verði á næstunni þannig að flest erindi eru afgreidd í gegnum síma eða tölvu. Fundum verður haldið í lágmarki og fari að stórum hluta fram með tölvu eða síma. Þetta gildir þar til annað hefur verið ákveðið. 

Þeir sem þurfa að ná sambandi við hjúkrunar- og dvalarheimilin, launadeild, fjölskyldusvið eða búsetusvið eru beðnir um að hafa samband með tölvupósti eða í gegnum síma. Vakin er athygli á síma- og netfangaskránni hér á heimasíðunni.

Þá er hægt að óska eftir og skila inn gögnum, svo og sækja um ýmsa þjónustu og leyfi í þjónustugátt Akureyrarbæjar sem er aðgengileg á heimasíðunni.

Minnt er á heimasíðu landlæknis, þar sem nálgast má allar helstu upplýsingar um COVID-19.

Almannavarnir hafa einnig gefið út ráðleggingar um mannamót með tilliti til faraldursins sem allir eru hvattir til að kynna sér og Akureyrarbær lítur að sjálfsögðu til við ákvarðanatöku. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan