Umræða um innanlandsflugið í bæjarráði

Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær var meðal annars fjallað annars vegar um stöðu framkvæmda við flughlaðið á Akureyrarflugvelli og einnig framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Í fundargerð bæjarráðs segir:

"Bæjarráð skorar á fjármálaráðherra og ríkisstjórn að úthluta fjármagni í fjárlögum til þess að klára flughlaðið við Akureyrarflugvöll. Eins og fram hefur komið er stækkun flughlaðsins mikið öryggismál vegna vaxandi flugumferðar til og frá Íslandi, en öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur í þessu sambandi bent á mikilvægi Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvalla. Þá er flughlaðið grundvöllur vaxandi flugstarfsemi á Akureyrarflugvelli sem mun styrkja og efla atvinnulíf og byggð á Norðurlandi öllu."

Einnig var rætt um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar, neyðarbraut og nýja flugstöð.

"Bæjarráð Akureyrar fagnar framkomnum hugmyndum samgönguráðherra um byggingu nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. Núverandi flugstöð er úr sér gengin og á engan hátt boðleg sem slík. Það er mikilvægt að geta boðið flugfarþegum og starfsfólki góða aðstöðu, ekki síst í ljósi hugmynda um eflingu innanlands flugsins. Þá er einnig ljóst að Reykjavíkurflugvöllur fer ekkert næstu árin eða áratugina, enda ekki enn fundin jafngóð eða betri lausn.

Jafnfram þessu vill bæjarráð ítreka bókun sína frá 5. janúar sl. í ljósi úrskurðar Samgöngustofu um lokun Neyðarbrautarinnar, en þar segir:

Í höfuðborg Íslands er eina hátæknisjúkrahús landsins. Það er því lífsnauðsynlegt að þangað sé ávallt greið leið með sjúklinga hvort sem er af höfðuborgarsvæðinu eða landsbyggðunum. Lokun Neyðarbrautarinnar svokölluðu á Reykjavíkurflugvelli hefur á undangengnum vikum leitt til þess að sjúkraflugvélar hafa ekki getað lent í Reykjavík né annars staðar á Suðvestur horninu með alvarlega veika einstaklinga, sem hafa þurft á bráðnauðsynlegri umönnun að halda á þessu eina hátæknisjúkrahúsi okkar landsmanna. Það er því ófrávíkjanleg krafa bæjarráðs Akureyrarkaupstaðar að Neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar verði opnuð aftur þar til önnur og jafngóð lausn finnst. Bæjarráð skorar á borgarstjórn Reykjavíkurborgar, innanríkisráðherra og Alþingi að stuðla að því að svo geti orðið."

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan