Spjallmenni svarar algengum spurningum á vefnum

Akureyrarbær er á meðal sveitarfélaga sem vinna nú að þróun svokallaðs spjallmennis fyrir heimasíður sínar en um er að ræða samstarfsverkefni undir forystu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Markmiðið með innleiðingu spjallmennis er að bæta þjónustu við íbúa og miðar að því að þeir geti þar með fengið hvenær sem er sólarhringsins og tafarlaust svör við spurningum sínum og um þjónustu bæjarsins.

Tinna Stefánsdóttir verkefnastjóri hjá Akureyrarbæjar er fulltrúi sveitarfélagsins í verkefninu. Hún hefur undanfarið unnið með fulltrúum úr öðrum sveitarfélögum um að safna saman spurningum og svörum fyrir spjallmennið.

"Hópurinn sem vinnur að því að búa til spurningarnar er fólkið sem vinnur m.a í þjónustuverum sveitarfélaganna, veitir alls kyns upplýsingar allan daginn og svarar ýmsum fyrirspurnum. Það sem hefur komið í ljós er að við erum öll að fá svipaðar spurningar þótt svörin séu ekki endilega alltaf þau sömu. Ég hef verið að taka saman og búa til lista yfir algengar fyrirspurnir sem berast Akureyrarbæ til dæmis í gegnum netspjall, síma, tölvupóst og ábendingagáttina. Þegar búið verður að ákveða hvaða spjallmenni verður fyrir valinu þá getur hvert sveitarfélag fyrir sig lagað sitt spjallmenni að eigin þörfum og bætt við spurningum," segir Tinna um verkefnið.

Vonast er til þess að hægt verði að hefja innleiðingu spjallmennisins á vef Akureyrarbæjar síðla sumars eða næsta haust. Sveitarfélögin sem taka þátt í þessu verkefni eru Hafnarfjörður, Múlaþing, Reykjanesbær, Reykjavík, Snæfellsbær, Borgarbyggð, Kópavogur, Borgarbyggð, Akranes og Garðabær auk Akureyrarbæjar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan