Söguskilti um hús Öldu í Hrísey

Myndir: María H. Tryggvadóttir
Myndir: María H. Tryggvadóttir

Nýtt söguskilti um Holt, hús Öldu Halldórsdóttur, var afhjúpað í Hrísey í gær. Markmiðið er að varðveita merkilega sögu hússins og eigandans.

Alda heitin, sem oft var nefnd „amma Hríseyinga", arfleiddi á sínum tíma Hríseyjarhrepp að Holti og öllu innbúi sínu. Það er nú eign Akureyrarbæjar og hefur Ferðamálafélag Hríseyjar haft umsjón með því í samstarfi við sveitarfélagið.

Alda fæddist árið 1913 og er húsið fallegt og vel varðveitt safn um það hvernig fólk bjó á þessum tíma. Alda var mikil hannyrðakona og eru mörg verk eftir hana í húsinu.

Hollvinahópur um húsið átti frumkvæði að skiltagerðinni og óskaði í fyrra eftir samstarfi við Akureyrarstofu sem var vel tekið, auk þess sem hópurinn fékk myndarlegan styrk frá Norðurorku vegna verkefnisins. Hugmyndin var að gera söguskilti með myndum og texta líkt og Akureyrarbær hefur látið gera og setja upp meðfram strandlengjunni og í Innbænum á Akureyri um sögu húsa og byggðar. Hópurinn vildi þannig gera sögu Holts og Öldu aðgengilegri og auka áhuga gesta á því að heimsækja og fá leiðsögn um húsið.

Afraksturinn hefur nú litið dagsins ljós og stendur við Holt. Skiltið á vafalaust eftir að vekja athygli og verður vonandi til þess að auka þekkingu og áhuga á sögu Öldu Halldórsdóttur og samtíðarfólks hennar í Hrísey. Hægt er að skoða skiltið hér.

Þess má geta að stefnt er að því að gera sambærilegt söguskilti um Hús Hákarla Jörundar og standa vonir til þess að það verði afhjúpað á næsta ári.


Þorgeir Jónsson og Brynja Höskuldsdóttir afhjúpuðu skiltið fyrir hönd hollvinahópsins sem hefur staðið 
veglega að umhirðu garðsins við húsið og enduruppbyggingu á gróðurhúsinu hennar Öldu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan