Öskudagur á morgun og nóg um að vera

öskudagur í Hofi 2016
öskudagur í Hofi 2016

Á morgun er öskudagur, sem er einn af litríkustu dögum ársins á Akureyri en þá klæðast ungmenni ýmiskonar skemmtilegum búningum og heimsækja fyrirtæki og stofnanir með það fyrir augum að syngja nokkur lög og fá að launum góðgæti. Öskudagsliðin leggja mörg hver af stað í bítið í fyrramálið og slá ekki slöku við fyrr en um hádegisbil.

Mörg þeirra fyrirtækja sem taka á móti öskudagsliðum hafa gert það til marga ára og má sem dæmi nefna fyrirtækið Blikkrás en þetta er 29. árið sem öskudagsliðum býðst að syngja fyrir starfsfólkið.  Íbúar öldrunarheimilanna á Akureyri, Hlíð og Lögmannshlíð vilja líka gjarnan hlýða á söng og taka glöð á móti öskudagsliðum.

Á Glerártorgi verður öskudagsdagskrá frá kl. kl. 9-12. Það verður söngva- og búningakeppni þar sem keppt verður um besta einstaklingssönginn, besta/skemmtilegasta einstaklingsbúninginn, besta söng öskudagsliðs og skemmtilegustu búninga öskudagsliðs. Einnig verður kötturinn verður sleginn úr tunnunni.

Í menningarhúsinu Hofi verður keppnin "Akureyri Gott Talent" á sínum stað og stendur yfir frá klukkan 11-13. Skráning hefst í miðasölunni í Hofi kl. 9 og er takmarkaður fjöldi.  Dómarar að þessu sinni verða Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Sópran úr Núnó og Júníu og Rúnar Eff eurovisionkeppandi með meiru. Kynnar verða leikararnir Alexander Dantes og Bjarni Snæbjörnsson úr leikritinu Núnó og Júníu.

Í verðlaun fyrir 1. sæti verður út að borða á Greifanum og miðar í leikhús, fyrir 2. sæti verða miðar í leikhús og fyrir 3. sæti verða bíómiðar í Borgarbíó og popp og gos.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan