Ný 3,3 MW virkjun Fallorku í Glerá

Stöðvarhús í Réttarhvammi
Stöðvarhús í Réttarhvammi

Þann 5. október var ný virkjun Fallorku í Glerá formlega tekin í notkun. Fallorka er að fullu í eigu Norðurorku sem rekur dreifikerfi fyrir raforku á Akureyri og rekur auk þess hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu á Akureyri og í nokkrum nágrannasveitarfélögum. Norðurorka er aftur í eigu Hörgársveitar, Akureyrarkaupstaðar, Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps, Grýtubakkahrepps og Þingeyjarsveitar.

Tilgangur hinnar nýju virkjunar í Glerá er að framleiða raforku inn á dreifikerfi Norðurorku hf. Árleg framleiðsla virkjunarinnar er áætluð 22 GWst sem samsvarar orkunotkun um 5 til 6 þúsund heimila á Akureyri eða álíka margra rafbíla.

Ný virkjun Fallorku í Glerá nýtir um 240 metra fallhæð á 6 km kafla í ánni ofan Akureyrar. Virkjað rennsli er 1,8 m3/sek og uppsett afl 3,3 MW. Inntaksstífla verður um 6 metra há og inntakslón lítið eða um 1 hektari að flatarmáli. Vatnsmiðlun verður því óveruleg og má kalla þetta hreina rennslisvirkjun. Stöðvarhúsið er í Réttarhvammi efst í bænum og virkjunin tengist inn á 11 kV dreifikerfi Norðurorku alveg í næsta nágrenni. Tengingin fer inn á þrjá mismunandi strengi Norðurorku til að auka sveigjanleika og afkastagetu dreifikerfisins. Orkutöp vegna flutnings verða sáralítil og mun virkjunin draga úr þörf Norðurorku fyrir að fá raforku af flutningskerfi Landsnets. 

Yfirlitsmynd af virkjunarsvæði á Glerárdal

 

Samhliða lagningu þrýstipípu hefur verið gerður rúmlega 6 km langur göngu- og hjólastígur frá stöðvarhúsi og upp að stíflu á Glerárdal.  Stígurinn fylgir leið pípunnar að miklu leyti en víkur þó frá henni á nokkrum stöðum. Til dæmis fer stígurinn nær gilbrún árinnar á köflum til að fólk geti sem best notið útsýnis. Stígurinn er að mestu tilbúinn og er fólki óhætt að fara um hann, en mikilvægt er að sýna varúð, því að merkingar eru ekki allar komnar upp. Búið er að setja upp girðingu á nokkrum stöðum þar sem bratt er niður að ánni.

Stígurinn krækir vestur fyrir skotsvæðið, vegna þess að þar er skotið með haglabyssum til austurs þ.e. í átt að ánni. Viðvörunarmerki sýna hvar er óhætt að ganga. Göngubrú verður reist yfir stífluna seinna í haust eða vetur og opnast þá ný hringleið um Glerárdal. Hafa verður þó í huga að stígur / troðningur upp frá stíflu austanmegin og inn á Lamba-slóðann verður ekki gerður fyrr en vorið/sumarið 2019.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan