Málefnasamningur nýs meirihluta kynntur

Meirihluti L-lista, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks við undirritun og kynningu á málefnasamningnum.
Meirihluti L-lista, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks við undirritun og kynningu á málefnasamningnum.

Málefnasamningur nýs meirihluta á Akureyri, L-listans, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks kjörtímabilið 2022-2026 var kynntur á kaffihúsinu LYST í Lystigarðinum á Akureyri í dag.

Í málefnasamningnum kemur m.a. fram að nýr meirihluti mun hafa aukna velferð, verðmætasköpun og bætt lífskjör fyrir alla íbúa sveitarfélagsins að leiðarljósi í sínum verkum. Áhersla verður lögð á að nýta þann meðbyr sem blæs við að byggja bæinn upp með metnað og fagmennsku að leiðarljósi. Stórauka á lóðaframboð og bjóða nýja íbúa hjartanlega velkomna og taka næstu skref við að móta framtíðarsýn fyrir svæðisborgina Akureyri.

Meirihlutinn vill nýta auknar tekjur sem fylgja aukinni uppbyggingu til þess að veita íbúum sveitarfélagsins betri þjónustu. Áhersla er lögð á að styðja áfram við það öfluga og framsækna starf sem unnið er í leik- og grunnskólum bæjarins og á að skoða möguleikana á að stoðþjónusta leik- og grunnskóla færist í auknum mæli inn í skólana sjálfa. Bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla verður brúað með fjölbreyttum leiðum og dregið úr kostnaðarþátttöku foreldra og forráðamanna í leik- og grunnskólum.

Áhersla er lögð á að Akureyrarbær verði áfram í forystu í flokkun, endurvinnslu og nýtingu á úrgangi og að „Græni trefillinn“ verði nýttur sem vettvangur fyrir einkaaðila, fyrirtæki og stofnanir til þess að kolefnisjafna starfsemi sína.

Megináhersla verður lögð á lýðheilsu almennings og fjölbreytt tómstundastarf í samvinnu við íþróttafélög og félagasamtök og farið verður í endurskoðun á forgangsröðun á uppbyggingu íþróttamannvirkja. Áfram verði tryggð fjölbreytt og öflug menningarstarfsemi á Akureyri og rík áhersla lögð á stuðning við að listnám á háskólastigi verði í boði á Akureyri.

Nýr meirihluti leggur áherslu á trausta og ábyrga fjármálastjórn, vandaða áætlanagerð og eftirfylgni. 

Samið verður við Ásthildi Sturludóttur um að gegna áfram starfi bæjarstjóra.

Formennska í ráðum og stjórnum verður eftirfarandi:

  • Forseti bæjarstjórnar – Sjálfstæðisflokkurinn
  • Formaður bæjaráðs – L-listinn
  • Fræðslu- og lýðheilsuráð – Sjálfstæðisflokkurinn
  • Skipulagsráð – L-listinn
  • Umhverfis- og mannvirkjaráð – L-listinn
  • Velferðarráð – L-listinn
  • Formennska í stjórn SSNE - Sjálfstæðisflokkur
  • Formennska í stjórn Norðurorku – Miðflokkurinn
  • Formennska í stjórn Hafnasamlags Norðurlands - Miðflokkurinn

Málefnasamningur L-lista, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks kjörtímabilið 2022-2026

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan