Mælaborð um velferð barna

Akureyrarbær er barnvænt sveitarfélag.
Akureyrarbær er barnvænt sveitarfélag.

Akureyrarbær er að taka í notkun mælaborð sem hefur að geyma safn upplýsinga um velferð og stöðu barna og ungmenna innan sveitarfélagsins.

Mælaborðið sýnir bæði einstakar mælingar á fjölmörgum þáttum og vísitölu barnvænna sveitarfélaga. Það samanstendur af fimm víddum sem eru beintengdar grunnstoðum Barnasáttmálans. Víddirnar eru menntun, jafnræði, heilsa & vellíðan, öryggi & vernd og samfélagsleg þátttaka.

Mælaborðið byggir á tiltækum tölfræðigögnum, meðal annars frá Skólavoginni, Rannsóknum og greiningu, Embætti landlæknis og fleirum. Með þessari nýju hugbúnaðarlausn er hægt að safna mælingum saman og hafa yfirsýn yfir stöðuna í heild, bera saman sveitarfélög og fylgjast með þróun yfir tíma.

Kópavogsbær þróaði mælaborðið í samstarfi við UNICEF og félagsmálaráðuneytið í tengslum við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og verkefnið barnvænt sveitarfélag. Öðrum sveitarfélögum sem eru á sömu vegferð, Akureyrarbæ þeirra á meðal, hefur verið veittur aðgangur að mælaborðinu og taka þau þátt í áframhaldandi þróun þess. Eins og kunnugt er varð Akureyrarbær í fyrra fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hljóta viðurkenningu barnvænna sveitarfélaga í samstarfi við UNICEF.

„Við fögnum því mjög að hafa fengið aðgang að mælaborðinu. Það skiptir okkur miklu máli að skilja betur og greina stöðu og líðan barna á Akureyri. Mælaborðið gefur okkur mikilvæga yfirsýn og hjálpar starfsfólki og stjórnendum sveitarfélagsins að undirbyggja stefnumótun, ákvarðanir og aðgerðir til þess að auka velferð barna og ungmenna," segir Hrafnhildur Guðjónsdóttir verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags hjá Akureyrarbæ. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan