Listasumar hefst á morgun!

Mynd frá Listasumri 2023.
Mynd frá Listasumri 2023.

Á morgun, fimmtudaginn 6. júní, hefst Listasumar 2024 og stendur hátíðin til 20. júlí. Nóg er um að vera næstu daga og vert er að nefna að flestir viðburðir Listasumars eru ókeypis. Yfirlit yfir alla viðburði og smiðjur Listasumars má finna á www.listasumar.is.

Fyrsti viðburður Listasumars verður á Minjasafninu þar sem sendiherra Þýskalands, Clarissa Duvigneau, opnar sýninguna Einstök Íslandskort – Schulte landakortin. Minjasafnið býður alla velkomna á opnunina kl. 17-19 til að njóta fallegra sögulegra Íslandskorta, úrvals veitinga og tónlistar tríós Kristjáns Edelstein.

Kvöldopnun verður í Listasafninu þar sem ein vinsælasta hljómsveit Grænlands, Nanook, heldur stutta tónleika frá kl. 19.30-20 og að þeim loknum verða tvær áhugaverðar samsýningar opnaðar. Á fimmtudagskvöld verður einnig uppákoma í Deiglunni í anda Fluxus-hreyfingarinnar.

Föstudaginn 7. júní verður hljómsveitin Nanook á Amtsbóksafninu þar sem sagt verður stuttlega frá sögu grænlenskrar tónlistar, flutt nokkur vel valin lög og tónlistarmennirnir spjalla við viðstadda.

Um helgina verða opnar vinnustofur listamanna og á sunnudaginn verða tvennir tónleikar: Brasskvintett Norðurlands leikur skemmtilega og fjöruga tónlist í Lystigarðinum milli kl. 14-15 og kl. 17 verða tónleikarnir Sumarljóð í Hofi þar tónlistarkonurnar Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir fara með áheyrendur í svolítið tónlistarferðalag og staldra einna helst við sumarið.

Mánudaginn 10. júní hefjast fjölbreyttar smiðjur fyrir krakka eins og hefð er fyrir. Við hvetjum foreldra til að kynna sér framboðið á smiðjum á www.listasumar.is.

Fornbílahittingarnir verða á sínum stað á miðvikudagskvöldum við Hof og í júlí verða einnig þrennir sumartónleikar Akureyrarkirkju. Enn eru að bætast við viðburðir á Listasumri og því er skorað á fólk að fylgjast vel með viðburðadagatalinu.

Samstarfsaðilar Listasumars eru: Akureyrarbær, Listasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Gilfélagið, Menningarhúsið Hof, Kaktus, Amtsbókasafnið á Akureyri, Bílaklúbbur Akureyrar, Geimstofan.

Nánari upplýsingar:

Heimahöfn Listasumars á samfélagsmiðlum er finna á Facebooksíðu Akureyrarbæjar og á Instagram.

Einnig mælum við með að gestir Listasumars noti myllumerkin #listasumar og #hallóakureyri.