Landfylling undir aðflugsljós - breyting á deiliskipulagi Höepfnersbryggju

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar auglýsir hér með skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillögu að breytingu á deiliskipulagi Höepfnersbryggju.

Skipulagssvæðið afmarkast af Leiruvegi til suðurs og Drottningarbraut til vesturs. Tillagan gerir ráð fyrir að austast á skipulagssvæðinu verði bætt við landfyllingu út í sjó til suðurs og norðurs frá Leiruvegi. Tilgangur með landfyllingunni er að koma fyrir aðflugsljósum fyrir Akureyrarflugvöll til að uppfylla kröfur um bætt aðflugsskilyrði og flugöryggi.

Landfyllingin mun ná tæplega 200 m í norður frá Leiruvegi og hafa flatarmál um 0,5 ha. Fyllingin verður afgirt og ekki ætluð sem almenningssvæði. Aðflugsljós verða sett upp í átta ljósasamstæðum með 30 m millibili.

Skipulagstillöguna má nálgast hér. Tillagan verður auk þess aðgengileg á 1. hæð í Ráðhúsi Akureyrarbæjar frá 23. febrúar til 10. apríl 2022.

Hægt er að skila inn athugasemdum og ábendingum um skipulagstillöguna á netfangið skipulag@akureyri.is eða bréfleiðis á Skipulagsdeild, Ráðhúsi, Geislagötu 9, 600 Akureyri, til 10. apríl 2022.

Athugasemdir teljast til opinberra gagna. Vakin er athygli á því að nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir koma fram í fundargerðum skipulagsráðs sem birtar eru á heimasíðu Akureyrarbæjar. Persónuupplýsingar sem fylgja athugasemdum við skipulag, s.s. kennitala, nafn og netfang eru aðeins nýttar í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda. Sjá nánar um meðferð persónuupplýsinga hjá Akureyrarbæ hér

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan