Kvennaathvarf opnað á Akureyri

Kvennaathvarfið er opnað í samstarfi við Bjarmahlíð sem hefur aðsetur í Aðalstræti 14 (Gamla spítala…
Kvennaathvarfið er opnað í samstarfi við Bjarmahlíð sem hefur aðsetur í Aðalstræti 14 (Gamla spítalanum).

Kvennaathvarf verður opnað á Akureyri þann 28. ágúst næstkomandi. Því verður ætlað að þjónusta konur og börn sem geta ekki búið heima hjá sér vegna ofbeldis.

Þjónustan verður viðbót við starfsemi Bjarmahlíðar, sem hefur frá í fyrra sinnt ýmiss konar þjónustu við þolendur ofbeldis á Norðurlandi, einkum með ráðgjöf og viðtölum. 

Það eru Samtök um kvennaathvarf og Bjarmahlíð sem standa að opnun kvennaathvarfsins í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu, Aflið, ráðherra félagsmála og dómsmála.

Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti fyrr í sumar að styrkja starfsemina með fjárframlagi og lýsti um leið yfir ánægju með þetta mikilvæga framtak.

Um er að ræða tilraunaverkefni til vors, en aðstandendur kvennaathvarfsins telja að allar forsendur séu fyrir rekstri athvarfs af þessu tagi á Norðurlandi og gera ráð fyrir að starfsemin sé komin til að vera.

Signý Valdimarsdóttir félagsráðgjafi hefur hafið störf sem verkefnisstýra nýja athvarfsins og vinnur nú hörðum höndum að undirbúningi opnunar þess.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan