Heimilt að halda áfram skipulagsvinnu fyrir Tónatröð

Á fundi skipulagsráðs í gær var fjallað um fyrirhugaðar breytingar á skipulagi vegna uppbyggingar við Tónatröð.

Lögð var fram umsögn Veðurstofu Íslands varðandi minnisblað GeoTek ehf. um jarðvegsaðstæður og byggingarhæfi lóða. Þá var jafnframt lagt fram minnisblað verkfræðistofunnar Mannvits um umferðargreiningu í tengslum við áhrif af byggingu 70 íbúða við Tónatröð.

Meirihluti skipulagsráðs samþykkti á fundinum að heimila umsækjanda að vinna tillögu að deiliskipulagsbreytingu sem byggir á áður innsendum gögnum. Í þeirri vinnu þurfi þó að gera ráð fyrir að umfang uppbyggingar minnki niður í fjögur hús en samkvæmt upphaflegum tillögum var gert ráð fyrir fimm húsum. Jafnframt þurfi að skoða sérstaklega afmörkun svæðisins og skuli breyting á deiliskipulagi einvörðungu ná til svæðis vestan megin við Tónatröð.

Skipulagsráð fól skipulagsfulltrúa einnig að halda áfram vinnu við breytingu á gildandi aðalskipulagi til samræmis við ofangreint og jafnframt óska eftir heimild Minjastofnunar til að fjarlægja hús á lóð Tónatraðar 8 í samráði við eigendur.

Markmiðið með þeirri tillögu sem liggur fyrir er að nýta svæðið betur en gert er ráð fyrir í gildandi skipulagi með því að byggja fjölbýlishús við Tónatröð. Skipulagslýsing vegna breytinganna var í kynningu frá 15. desember til og með 12. janúar. Samtals bárust 113 ábendingar af ýmsum toga, meðal annars varðandi umfang og fjölda bygginga á svæðinu, sem hafa verið og verða áfram hafðar til hliðsjónar við skipulagsvinnuna.

Smelltu hér til að skoða vefsvæði með öllum helstu upplýsingum um málið.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan