Tónatröð

Vinna er hafin við breytingu á skipulagi fyrir svæði við Spítalaveg og Tónatröð. Um er að ræða hluta svæðis sem í gildandi aðalskipulagi er merkt sem ÍB1 og kallast Fjaran, Lækjargil og Spítalastígur. Markmiðið er að nýta svæðið betur en gert er ráð fyrir í gildandi skipulagi með því að byggja fjölbýlishús við Tónatröð.

Skipulagssvæðið eins og það lítur út í dag 

Á fundi skipulagsráðs 23. febrúar 2022 var fjallað um fyrirhugaðar breytingar á skipulagi vegna uppbyggingar við Tónatröð. 

Lögð var fram umsögn Veðurstofu Íslands varðandi minnisblað GeoTek ehf. um jarðvegsaðstæður og byggingarhæfi lóða. Þá var jafnframt lagt fram minnisblað verkfræðistofunnar Mannvits um umferðargreiningu í tengslum við áhrif af byggingu 70 íbúða við Tónatröð.

Meirihluti skipulagsráðs samþykkti að heimila umsækjanda að vinna tillögu að deiliskipulagsbreytingu sem byggir á áður innsendum gögnum. Í þeirri vinnu þurfi þó að gera ráð fyrir að umfang uppbyggingar minnki niður í fjögur hús en samkvæmt upphaflegum tillögum var gert ráð fyrir fimm húsum. Jafnframt þurfi að skoða sérstaklega afmörkun svæðisins og skuli breyting á deiliskipulagi einvörðungu ná til svæðis vestan megin við Tónatröð.

Skipulagsráð fól skipulagsfulltrúa einnig að halda áfram vinnu við breytingu á gildandi aðalskipulagi til samræmis við ofangreint og jafnframt óska eftir heimild Minjastofnunar til að fjarlægja hús á lóð Tónatraðar 8 í samráði við eigendur.

Fyrri skref í málinu:

Des 2021 - jan 2022: Skipulagslýsing 

Bæjarstjórn samþykkti 14. desember 2021 skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga. Skipulagslýsing er í raun lýsing á skipulagsverkefninu, þar sem fram koma helstu áherslur bæjarstjórnar, upplýsingar um forsendur, fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli.

Smelltu hér til að skoða skipulagslýsinguna.

Í stuttu máli felur tillagan í sér breytt fyrirkomulag lóða og húsa þar sem aukið er við byggingarmagn og íbúðum fjölgað. Í skipulagslýsingunni kemur fram að miðlæg staðsetning svæðisins geri það áhugavert til uppbyggingar, jafnvel þótt það sé ekki skilgreint sem þéttingarsvæði í gildandi aðalskipulagi. „Miðað við framgang uppbyggingar á svæðinu undanfarin 30 ár er ekki talið skynsamlegt að gera áfram ráð fyrir stórum einbýlishúsum á tveimur til þremur hæðum eins og deiliskipulag svæðisins hefur hingað til miðað við. Er það mat skipulagsráðs að nýta mætti svæðið með betri hætti,“ segir í lýsingunni.

Skipulagslýsingin var í kynningu frá 15. desember til og með 12. janúar. Samtals bárust 113 ábendingar við skipulagslýsinguna af ýmsum toga. Nánar hér: Margar ábendingar við skipulagslýsingu

Öllum þeim sem sendu inn ábendingu er þakkað kærlega fyrir þeirra framlag. Ábendingarnar verða hafðar til hliðsjónar við áframhaldandi vinnslu málsins ásamt athugasemdum frá umsagnaraðilum eins og Skipulagsstofnun, Minjastofnun, hverfisnefnd Brekku og Innbæjar, Norðurorku, Isavia og Veðurstofunni.

Næstu skref

Það sem gerist næst er að skipulagsráð og bæjarstjórn þurfa að taka afstöðu til áframhaldandi skipulagsvinnu byggt á innkomnum ábendingum og umsögnum. Niðurstöður jarðvegsrannsókna á svæðinu liggja fyrir og hafa þær nú þegar verið sendar Veðurstofunni til umsagnar. Veðurstofan er sá óháði aðili sem sér um að meta hvort að framkvæmdir á þessu svæði geti orðið fyrir eða jafnvel haft neikvæð áhrif á ofanflóð og skriðuhættu.

Þá hafa verið í gangi mælingar á umferð á nokkrum stöðum í nágrenni við framkvæmdasvæðið og verða þær upplýsingar nýttar til að meta vandlega áhrif skipulagsbreytinganna á umferð til og frá svæðinu. Hefur verkfræðistofan Mannvit verið fengin til að meta áhrif skipulagsbreytinganna á umferð.

Nóv 2021: Tillaga að uppbyggingu - skipulagsferli hefst

Skipulagsráð Akureyrarbæjar tók þann 10. nóvember 2021 fyrir tillögu að uppbyggingu við Tónatröð og samþykkti að hefja vinnu við breytingu á skipulagi svæðisins. Bæjarstjórn hafði áður samþykkt að heimila SS Byggi ehf. að vinna að breytingum á skipulaginu. 

Skipulagsráð tók jákvætt í tillögu Yrki arkitekta og fól sviðsstjóra skipulagssviðs að hefja vinnuna. „Í þeirri vinnu þarf að skoða betur afmörkun svæðisins og umfang uppbyggingarinnar, áhrif hennar á nánasta umhverfi, umferð til og frá svæðinu, jarðvegsaðstæður og fleiri þætti,“ segir í bókun skipulagsráðs.

Í stuttu máli felur tillagan í sér breytt fyrirkomulag lóða og húsa þar sem aukið er við byggingarmagn og fjölgun íbúða frá núgildandi skipulagi. Gert er ráð fyrir að breyta þurfi bæði aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna uppbyggingar á svæðinu.

Fyrsta skref er að útbúa skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi, sem er eins konar lýsing á verkefninu framundan. Ef skipulagsráð og bæjarstjórn samþykkja lýsinguna verður hún kynnt fyrir íbúum og öðrum hagsmunaaðilum áður en lögð verða til drög að skipulagsbreytingu.

Hér er myndræn kynning á þeim tillögum sem liggja til grundvallar við upphaf skipulagsferlisins.

Síðast uppfært 25. febrúar 2022