FIMAK verður Fimleikadeild KA

Það voru Eiríkur Jóhannsson, formaður KA, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, sem undirrituðu sa…
Það voru Eiríkur Jóhannsson, formaður KA, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, sem undirrituðu samninginn. Að baki þeim standa, talið frá vinstri: Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður IBA, Arnar Gauti Finnsson, skrifstofustjóri KA, Pétur Birgisson, stjórn fimleikadeildar KA, Sævar Pétursson, framkvæmdarstjóri KA, Hjörleifur Örn Jónsson, stjórn fimleikadeildar KA, Einar Pampichler Palsson, stjórn fimleikadeildar KA, Sonja Dagsdóttir, formaður fimleikadeildar KA, og Ellert Örn Erlingsson, forstöðumaður íþróttmála hjá Akureyrarbæ.

Sameining Fimleikafélags Akureyrar, FIMAK og Knattspyrnufélags Akureyrar, KA, var samþykkt einróma á félagsfundum beggja félaga sem haldnir voru í gærkvöldi. Sameiningarviðræður hafa staðið yfir undanfarna mánuði en Íþróttabandalag Akureyrar og Akureyrarbær hafa einnig komið að þeim viðræðum.

FIMAK verður lagt niður í núverandi mynd og færist starfsemi þess undir KA sem fimleikadeild félagsins. KA tekur formlega við allri starfsemi FIMAK frá og með deginum í dag, 1. desember.

Núverandi stjórn FIMAK mun starfa áfram en nú sem stjórn fimleikadeildar KA. Sonja Dagsdóttir, formaður FIMAK, er mjög sátt við niðurstöðuna: „Ég tel þessa ákvörðun vera mikið gæfuspor fyrir FIMAK. Við göngum inn í stórt og öflugt félag með sterka innviði og við teljum að þetta skref muni efla faglegt starf FIMAK enn frekar á komandi árum.“

Eiríkur S Jóhannsson, formaður KA, segir sameininguna efla KA enn frekar sem fjölgreinafélag og vera í takt við þá íþróttastefnu sem hefur verið við lýði í bænum undanfarin ár. Eiríkur leggur áherslu á að þessi viðbót við starf KA sé í samræmi við markmið félagsins um að efla íþróttastarfsemi á Akureyri og virkja sem flesta til þátttöku í þeim, sérstaklega sé ánægjulegt að fá fleiri stúlkur sem iðkendur hjá félaginu og þannig jafnist hlutfall drengja og stúlkna hjá KA.

Samkomulag milli Akureyrarbæjar og Knattspyrnufélags Akureyrar 2023-2025 vegna fimleikadeildar KA

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan