Djákninn á Myrká í norrænu samstarfi?

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri ávarpar gestina á sal Brekkuskóla.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri ávarpar gestina á sal Brekkuskóla.

Nú stendur yfir á Akureyri norrænt vinabæjarmót þar sem ungt fólk frá Ålesundi í Noregi, Randers í Danmörku, Lahti í Finnlandi og Västerås í Svíþjóð mætast ásamt heimafólki. Mótið er haldið á Akureyri á fimm ára fresti og að þessu sinni tekur hópur ungmenna frá pólsku borginni Jelenía Góra einnig þátt í því vegna samstarfs við Akureyrarbæ á þessu ári og því næsta á nokkrum sviðum.

Unga fólkið vinnur saman í fimm daga að spennandi verkefnum í nokkrum vinnusmiðjum sem endar svo með sameiginlegri leik- og danssýningu í Hamraborg í Hofi á morgun föstudag kl. 17.00. Söguþráðurinn er þjóðsagan um Djáknann frá Myrká og verður spennandi að sjá hvernig unga fólkið vinnur úr þessari frægu draugasögu með sínum hætti. Aðgangur að sýningunni er öllum opinn og án endurgjalds. Skorað er á bæjarbúa að fjölmenna.

Samhliða móti ungmennanna er haldið styttra mót stjórnmálafólks og starfsmanna sveitarfélaganna en dagskráin er að stórum hluta sameiginleg dagskrá krakkanna. Jafnframt eru í bænum fulltrúar Norræna félagsins frá öllum vinabæjunum. Heildarfjöldi þátttakenda er um 130 manns. Vinabæjarmótinu lýkur svo á morgun, föstudag.

Markmiðið með mótinu er m.a. að halda á lofti norrænu samstarfi og gildi þess, mynda tengsl milli ungmenna í öllum löndunum og miðla þekkingu og reynslu jafnt meðal unga fólksins sem og stjórmálafólks og starfsmanna.


Unga fólkið spjallar saman og kynnist hvert öðru við Brekkuskóla.


Þjóðfánar norrænu landanna við Hof þar sem verður leik- og danssýning á afrakstri úr vinnusmiðjum ungmennanna kl. 17 á morgun.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan