Davíð leggur Golíat

Sunnudaginn 14. desember kl. 11.00 fer fram afhjúpun á minnisvarða um þrískiptingu ríkisvaldsins og meint umferðarlagabrot Jóns Kristinssonar á Akureyri. Athöfnin fer fram á horni Þingvallastrætis og Byggðavegar. Á þessum stað er markað upphaf eins mikilvægasta dómsmáls þjóðarinnar á síðari tímum.

Akureyri_7feb07_5Forsaga málsins er þessi: Þriðjudaginn 26. júní 1984 kl. 16.40 stöðvuðu tveir lögreglumenn Jón Kristinsson á Subaru bifreið sinni A 3088 og gáfu honum að sök að hafa ekki virt stöðvunarskyldu þar sem hann ók norður Byggðaveg og beygði inn á Þingvallastræti til austurs. Var þetta annað meint umferðalagabrot Jóns á stuttum tíma. Voru málin tekin fyrir samtímis í Sakadómi Akureyrar og hann sakfelldur af báðum ákærum.

Jón ákvað að una ekki dóminum og benti á að sami maður hafði sinnt málinu í umboði lögreglustjóra (framkvæmdavalds) annars vegar og bæjarfógeta (dómsvalds) hins vegar. Fullyrti hann að með því væri réttlát málsmeðferð ekki tryggð. Eftir að dómur fyrir fyrra brotið hafði verið staðfestur í Hæstarétti leitaði Jón til Mannréttindadómstóls Evrópu sem ákvað að veita honum áheyrn fyrstum Íslendinga.

Niðurstaðan var afdráttarlaus:
Málsmeðferð í kjölfar meints umferðalagabrots Jóns Kristinssonar braut í bága við 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta dómsmeðferð fyrir dómstólum. Þegar ljóst varð að íslenska ríkið myndi tapa málinu í Strassburg leitaði það sátta með fororði um að réttarskipan landsins yrði breytt innan tiltekins tíma.

Í kjölfarið voru sett lög á Alþingi þar sem skilið var með óyggjandi hætti milli dóms- og framkvæmdavalds. Óréttur sem þjóðin hafði búið við heyrði þar með sögunni til.
Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan