Covid-19 og starfsemi Akureyrarbæjar: Starfsdagur í leik- og grunnskólum á mánudag

Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Bæjarráð Akureyrarbæjar og sviðsstjórar hafa fundað í dag um viðbrögð við útbreiðslu Covid-19 veirunnar í landinu og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir sem varða samkomur og kennslu í skólum.

Í Háskólanum á Akureyri og framhaldsskólum bæjarins verður einungis fjarkennsla en áfram verður starfað í leik- og grunnskólum. Til þess að starfsmenn og kennarar í leik- og grunnskólum geti ráðið ráðum sínum og skipulagt framhaldið hefur verið ákveðið að starfsdagur verði í öllum leik- og grunnskólum Akureyrar mánudaginn 16. mars. Þetta þýðir að grunn- og leikskólabörn verða ekki í skólanum á mánudaginn. Foreldrar eru beðnir að fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu um helgina og á mánudaginn m.a. á heimasíðu Akureyrarbæjar og heimasíðum grunn- og leikskóla.

Akureyrarbær hefur nú þegar og mun eftir atvikum grípa til varúðarráðstafana sem eru fyrst og fremst til að vernda viðkvæma hópa og koma í veg fyrir rof á mikilvægri starfsemi. Líkt og áður hefur verið tilkynnt eru Öldrunarheimili Akureyrar lokuð fyrir heimsóknum og er í skoðun hvernig megi enn frekar tryggja öryggi íbúa og starfsfólks.

Skrifstofum búsetusviðs í Glerárgötu 26, Plastiðjunni Bjargi-Iðjulundi og Hæfingarstöðinni Skógarlundi hefur verið lokað fyrir gestum og gangandi. Ekki verður starfsemi á vegum Akureyrarbæjar í félagsmiðstöðvum fyrir eldri borgara í Víðilundi og Bugðusíðu næstu daga eða vikur. Hjá fjölskyldusviði er reynt að afgreiða sem flest erindi í gegnum tölvu og síma, en í öðrum tilvikum kemur fólk í viðtöl. Fundir verða eins og kostur er með fjartækni. 

Önnur starfsemi og þjónusta verður með venjulegu sniði. Opið verður í Sundlaug Akureyrar, söfnum bæjarins og Hlíðarfjalli en þar verður þó veitingasalan lokuð frá og með deginum í dag (ákvörðun um að loka veitingasölunni var tekin að kvöldi 13/3).

Í dag hefur verið lögð sérstök áhersla á að moka og hreinsa göngustíga innan bæjarins til að auðvelda íbúum að njóta útiveru í fallegu veðri. Fólk er hvatt til að halda ró sinni, njóta lífsins áfram og fylgjast vel með helstu tíðindum, bæði hér á heimasíðunni og á heimasíðu Landlæknis.

Stjórnendur og starfsfólk Akureyrarbæjar vinnur úr þeirri stöðu sem upp er komin, fundar daglega ef þess þarf og metur hvernig tilmæli stjórnvalda snerta starfsemi sveitarfélagsins. Viðbragðsáætlanir hafa verið uppfærðar í samráði við almannavarnir og landlækni og er staðan metin daglega.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan