Breytingar verði gerðar á samþykkt um kattahald

Á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag var ákveðið að gera breytingar á samþykkt um kattahald í bænum á þann hátt að þeim tilmælum verði beint til eigenda dýranna að takmarka lausagöngu þeirra meðan á varptíma fugla stendur og að lausaganga katta verði ekki heimil að næturlagi frá og með næstu áramótum. Um leið var samþykkt að falla frá samþykkt meirihluta bæjarstjórnar frá 2. nóvember sl. um að lausaganga katta verði alfarið bönnuð frá árinu 2025. Lögð er rík áhersla á að breyttri samþykkt um kattahald verði fylgt eftir og áhersla lögð á ábyrgð eigenda katta og skráningarskyldu dýranna.

Bókunin sem samþykkt var með 11 samhljóða atkvæðum er svohljóðandi:

Bæjarstjórn samþykkir að falla frá samþykkt meirihluta bæjarstjórnar frá 2. nóvember sl., um að lausaganga katta verði alfarið bönnuð frá árinu 2025. Það er ekkert launungarmál og hefur bæði komið fram í umræðu og í könnunum að það eru afar skiptar skoðanir meðal bæjarbúa varðandi lausagöngu katta. Til þess að að ná fram sátt í málinu þá samþykkir bæjarstjórn að samþykkt um kattahald í Akureyrarbæ verði breytt með það að markmiði að sem flestir geti vel við unað. Bæjarstjórn samþykkir því að gerðar verði breytingar á 2. grein samþykktar um kattahald þar sem sett verði inn tilmæli er snúa að varptíma fugla auk þess sem sett er inn að lausaganga katta verði ekki heimil að næturlagi frá kl. 24.00 til kl. 07.00 og taki það ákvæði gildi frá og með næstu áramótum. Jafnframt leggur bæjarstjórn ríka áherslu á að nú þegar verði markviss vinna sett í það að framfylgja samþykktinni með sérstakri áherslu á ábyrgð eigenda og skráningarskyldu. Bæjarstjórn samþykkir framlagðar tillögur um breytingar á samþykkt um kattahald í Akureyrarbæ og vísar til síðari umræðu og endanlegrar afgreiðslu bæjarstjórnar.

Fundargerð bæjarstjórnar í heild sinni er að finna hér.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan