Aukin notkun á þjónustugátt Akureyrarbæjar

Árið 2023 bárust 9.602 umsóknir í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar hér á heimasíðunni sem er 15% meira en árið á undan. Hátt í 36.000 rafrænar umsóknir hafa borist sveitarfélaginu frá því að gáttin var tekin í notkun árið 2017.

Á hverju ári er nýjum umsóknarformum um þjónustu, leyfi og fleira bætt við gáttina. Í fyrra fjölgaði um fjögur form og voru þau 154 við síðustu áramót. Umsóknarformin tilheyra öllum sviðum bæjarins en sem fyrr eru skipulags- og byggingarmál einna fyrirferðarmest ásamt skólamálum og velferðarþjónustu ýmis konar.

Meðal breytinga sem höfðu áhrif á notkun árið 2023 voru ný umsóknarform vegna heimgreiðslna og afsláttar af leikskóla- og frístundagjöldum. Formin eru tilkomin vegna breytinga á leikskólakerfinu, nýrrar gjaldskrár og tekjutengingar. Þessar umsóknir eru býsna stór hluti af fjölgun umsókna í fyrra.

Akureyrarbær rekur einnig rafræna innri gátt þar sem starfsfólk getur sent inn beiðnir vegna starfs síns, svo sem um þjónustu hjá öðru fagfólki bæjarins í umboði skjólstæðinga eða beiðnir um aðgang að kerfum. Notkun á innri gáttinni hefur aukist verulega eða um 75% milli áranna 2022 og 2023, ekki síst vegna innleiðingar rafrænna ráðningarsamninga. Þessir rafrænu vinnuferlar spara tíma, auka skilvirkni og einfalda umsýslu mála hjá starfsfólki bæjarins, auk þess sem rekjanleiki og möguleikar á tölfræði eru mun meiri en áður.

Í fyrra var tekin í notkun ný útgáfa af þjónustugáttinni sem er hraðvirkari og notendavænni en sú fyrri. Áfram verður unnið að því að þróa gáttina og gera hana enn betur úr garði til að mæta óskum og þörfum íbúa. Er þetta mikilvægur liður í stafrænni sókn sveitarfélagsins þar sem markmiðin eru meðal annars að stytta leið íbúa að þjónustunni.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan