Lokanir gatna á Akureyrarvöku

Akureyrarvaka fer fram um helgina, frá föstudegi til sunnudags. Búist er við miklu fjölmenni í miðbænum sem leiðir óhjákvæmilega til þess að loka þarf nokkrum götum tímabundið.

Listagilið og göngugatan verða lokuð fyrir umferð ökutækja frá kl. 11 föstudaginn 26. ágúst til hádegis sunnudaginn 28. ágúst. Það á einnig við um göturnar næst Ráðhústorgi, hluta Skipagötu, Strandgötu og Túngötu (rautt á meðfylgjandi korti).

Vegna Draugaslóðar í Innbænum verða Spítalavegurinn, Lækjargata, Aðalstræti og Hafnarstræti sunnan gatnamóta við Aðalstræti, lokuð fyrir umferð ökutækja frá kl. 22 til miðnættis föstudagskvöldið 26. ágúst en þó geta íbúar ekið um Lækjargötu og hluta Hafnarstrætis austur af Aðalstræti (blátt á meðfylgjandi korti).

Vegna tónleikahalds laugardagskvöldið 27. ágúst teygist lokunin í Listagilinu upp að gömlu kartöflugeymslunni (Kollgátu) og upp Eyrarlandsveg að gatnamótum við Þingvallastræti en íbúar mega þó aka um hluta Eyrarlandsvegar (grænt á meðfylgjandi korti).

Kort yfir lokanir gatna á Akureyrarvöku (pdf)

Kort yfir lokanir gatna á Akureyrarvöku (jgp)

Bílastæði eru meðal annars við:

  • Menningarhúsið Hof
  • Ráðhúsið
  • Skipagötu
  • Hofsbót

Almenningssalerni verða á eftirtöldum stöðum:

  • Menningarhúsið Hof (aðgengi fyrir fatlaða)
  • Bílastæði við Skipagötu (aðgengi fyrir fatlaða)
  • Listasafnið á Akureyri (aðgengi fyrir fatlaða)

Vakin er athygli á því að samkvæmt 12. grein samþykktar Akureyrarbæjar um hundahald er óheimilt að fara með hunda á samkomur eins og Akureyrarvöku.

Umferð dróna er bönnuð nema með leyfi hátíðarhaldara og flugturns Akureyrarflugvallar.

Dagskrá Akureyrarvöku er að finna á www.akureyrarvaka.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan