Akureyrarbær tryggir ungu fólki sumarvinnu

Akureyri. Mynd: María Helena Tryggvadóttir
Akureyri. Mynd: María Helena Tryggvadóttir

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um sumarstörf fyrir 18-25 ára ungmenni á Akureyri. Þessi störf eru tilkomin vegna atvinnuástandsins í þjóðfélaginu og liður í aðgerðum Akureyrarbæjar vegna Covid-19.

Annars vegar er um að ræða 100 störf fyrir námsmenn í atvinnuátaki Akureyrarbæjar og Vinnumálastofnunar. Þetta eru fjölbreytt störf, meðal annars á söfnum, útivistarsvæðum, íþróttafélögum og skrifstofum bæjarins. Meðal verkefna eru smíði, stígagerð, merking gönguleiða, safnvarsla, vefsíðuvinna og almenn skrifstofustörf. Umsóknarfrestur er til og með 24. maí nk. Nánar hér. 

Hins vegar er almennt atvinnuátak Akureyrarbæjar fyrir 18-25 ára og þar er markmiðið að tryggja öllum vinnu sem sækja um og uppfylla skilyrði. Gert er ráð fyrir að í boði verði vinna í fimm vikur, sjö tíma á dag, en komið gæti til þess að tímafjöldi verði endurskoðaður ef fjöldi umsókna verður umtalsverður. Umsóknarfrestur er til og með 31. maí nk. Nánar hér. 

Búið að ráða 344 í sumarstörf

Að frátöldum þessum átaksverkefnum hafa 344 verið ráðin í almenn sumarstörf á hinum ýmsu sviðum Akureyrarbæjar. Flestar sumarafleysingar eru hjá Öldrunarheimilum Akureyrar en einnig eru býsna mörg sumarstörf í búsetu- og heimaþjónustu. Þá er þó nokkur fjöldi sem kemur til með að vinna við umhirðu í bæjarlandinu, í leikskólum, sundlaugum og margt fleira.

Akureyrarbær sótti einnig um styrk hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna vegna 13 sumarstarfa. Þar er um að ræða spennandi verkefni fyrir háskólanema í grunn- og meistaranámi sem verða auglýst nánar fljótlega.

Þar að auki verður Vinnuskóli Akureyrar starfræktur í sumar fyrir börn og ungmenni á aldrinum 14-17 ára. Umsóknarfrestur rennur út 22. maí og sama gildir um sumarvinnu með stuðningi. Nú þegar hafa yfir 500 börn og ungmenni sótt um í Vinnuskólann.

Þegar allt er talið má ætla að yfir eitt þúsund fái vinnu hjá Akureyrarbæ í sumar. Meginþorri starfsfólks er yngri en 25 ára.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan