Afsláttur af gatnagerðargjöldum

Hrísey og Grímsey eru töfrandi eyjur hvor á sinn hátt. Hér er mynd af nýja tákninu fyrir heimskautsb…
Hrísey og Grímsey eru töfrandi eyjur hvor á sinn hátt. Hér er mynd af nýja tákninu fyrir heimskautsbauginn í Grímsey, Orbis et Globus. Verkið er eftir Kristinn E. Hrafnsson og Studio Granda og var vígt 2017. Það hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðafólk.

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar ákvað á fundi sínum 19. mars sl. að veita 75% afslátt af gatnagerðargjöldum á lóðum í Hrísey og Grímsey til ársloka 2021, í samræmi við heimild í 2. mgr. í 5.2. gr. í gjaldskrá gatnagerðargjalda. Þetta er gert í því skyni að styðja við uppbyggingu í eyjunum með vísan til brothættra byggða.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, segir að meginmarkmiðið með því að veita þennan afslátt sé að hvetja einstaklinga sem hafa hug á því að ráðast í byggingarframkvæmdir í annarri hvorri eyjunni til þess að fara af stað sem fyrst og ýta þannig undir uppbyggingu á öðrum sviðum mannlífsins. "Bærinn hefur um nokkurt skeið komið að ýmsum verkefnum sem ætluð eru til þess að efla byggðina í eyjunum og þetta er einn liður í því," segir Halla Björk.

Grímsey og Hrísey eru sem kunnugt er hluti sveitarfélagsins. Grímsey sameinaðist Akureyrarbæ árið 2009 og Hrísey árið 2004.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan