Aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara

Bæjarráð samþykkti í morgun fyrsta hluta aðgerðaáætlunar í málefnum eldri borgara á Akureyri. Aðgerðaáætlunin, sem gildir út árið 2022, tekur fyrst og fremst á heilsueflingu, félagsstarfi og upplýsingagjöf.

Bæjarráð óskaði eftir því í febrúar sl. að myndaður yrði samráðshópur sem hefði það að markmiði að útbúa aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara sem tæki á heildstæðri þjónustu bæjarins við hópinn, þar sem sérstaklega væri horft til skýrslu um heilsueflingu aldraðra.

Heilsuefling, félagsstarf og upplýsingagjöf

Samráðshópurinn var skipaður kjörnum fulltrúum, starfsfólki bæjarins og fulltrúa öldungaráðs, en rík áhersla var lögð á samráð við öldungaráð og félag eldri borgara.

Í ljósi umfangs heildstæðrar aðgerðaáætlunar, sem felur meðal annars í sér aðgerðir í húsnæðismálum og heimaþjónustu, var ákveðið að áfangaskipta verkefninu. Fyrsti hluti, sem nú hefur verið samþykktur, snýr því fyrst og fremst að metnaðarfullum aðgerðum á sviði heilsueflingar, félagsstarfs og upplýsingagjafar.

Ríflega 20 milljónum króna varið í aðgerðir

Áætlunin er sett fram til eins árs og felur í sér 12 mælanlegar og tímasettar aðgerðir. Meðal annars er stefnt að því að gera Akureyrarbæ að aldursvænu samfélagi og að félagsmiðstöðvar fólksins (Birta og Salka) verði heilsueflandi félagsmiðstöðvar. Aukinn stuðningur við íþróttastarf og heilsurækt, bættar upplýsingar um þjónustu við eldra fólk, fræðsla um næringu og heilsuefling í heimaþjónustu eru einnig dæmi um aðgerðir sem eiga sér stað í áætluninni. Hér er hægt að skoða aðgerðaáætlunina.

Bæjarráð lýsti í morgun yfir ánægju með vinnu starfshópsins og samþykkti framlagða aðgerðaáætlun að undanskilinni einni aðgerð vegna hreystitækja sem vísað er til nánari greiningar. Gert er ráð fyrir 20,3 milljónum króna vegna aðgerðaáætlunarinnar í fjárhagsáætlun ársins 2022.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan