Aðalskipulagsbreyting verður auglýst

Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti í gær að auglýsa aðalskipulagsbreytingu fyrir hluta Oddeyrar sem felur í sér að hluti athafnasvæðis verði skilgreint sem íbúðarsvæði og hæð einstakra bygginga geti orðið allt að 25 metrar yfir sjávarmáli.

Reiturinn afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri.
Tillagan var kynnt 6. maí síðastliðinn og hafði þá verið endurskoðuð, í samræmi við umsagnir og athugasemdir, frá því lýsing skipulagsbreytingarinnar var kynnt í október í fyrra. Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar og skipulagsgögn.

Breyting á aðalskipulagi getur verið langt og býsna flókið ferli. Nú þegar bæjarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu fer málið til Skipulagsstofnunar til athugunar og að því loknu verður tillagan auglýst og kynnt vel í að lágmarki sex vikur áður en skipulagsráð og bæjarstjórn taka hana aftur til umfjöllunar. Hér má sjá helstu skrefin í ferlinu og hvar málið er statt.

Ljóst er að fyrirhuguð skipulagsbreyting hefur vakið mikla athygli og umræðu í samfélaginu. Á fundi bæjarstjórnar í gær áréttaði meirihlutinn með bókun að sú mynd sem hafi verið birt af útliti húsa á reitnum sé ekki til umræðu. Verði aðalskipulagsbreytingin samþykkt taki við vinna við deiliskipulag þar sem afstaða verði meðal annars tekin til byggingamagns, hæðar og útlits.

„Oddeyri er mikilvægt svæði þegar kemur að framtíðarþróun Akureyrar og æskilegt er að koma svæðinu í endurnýjun og uppbyggingu sem fyrst. Svæðið sem aðalskipulagsbreytingin á við um er verðmætt til uppbyggingar og þéttingar byggðar. Þétting byggðar er hvorutveggja umhverfisvæn og hagkvæm. Hlutfallslegur kostnaður við viðhald gatna, veitna, sorphirðu og snjómokstur á hvern íbúa lækkar. Göngu- og hjólafjarlægðir styttast og innviðir á borð við skóla og þjónustu nýtast fleirum ásamt því að auðveldara er að halda úti almenningssamgöngum,“ segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar.

Ferli vegna verulegrar breytingar á aðalskipulagi:

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan