Mynd: Auðunn Níelsson.
Aðalinnritun í leikskóla á Akureyri fyrir haustið 2023 fer fram nú í lok mars og í aprílmánuði. Þá fá foreldrar væntanlegra leikskólanemenda send innritunarbréf frá skólunum í tölvupósti. Innritað er í hvern leikskóla eftir kennitölum barna og forgangsreglum.
Börn sem eru fædd árið 2022 eru innrituð í alla leikskóla bæjarins. En þar sem innritað er eftir kennitölum í hvern skóla fyrir sig, er mjög mismunandi hversu mörgum foreldrum barna af yngstu árgöngunum býðst innritun fyrir börn sín í hvern skóla. Því er gengið út frá því að stórum hópi foreldra yngri barna, verði boðið leikskólapláss í öðrum leikskólum en umsókn kveður á um.
Nú þegar hefur stór hópur foreldra fengið innritunarbréf fyrir börn sín. Þeir foreldrar fá 5 daga frest til að staðfesta eða hafna innritun barna sinna. Ef foreldri hafnar innritun er öðru foreldri boðin innritun fyrir sitt barn í staðinn og svo koll af kolli, þar til skólinn fyllist.
Þeir foreldrar sem ekki fá tilboð um innritun í þá skóla sem þeir settu í 1. sæti á umsókn barns síns, fá tölvupóst frá fræðslu- og lýðheilsusviði í aprílmánuði með upplýsingum um hvaða leikskólar geta boðið þeim skólagöngu fyrir börn sín.
Nánari upplýsingar gefur Sesselja Sigurðardóttir, leikskólaráðgjafi fræðslu- og lýðheilsusviðs, netfang sesselja@akureyri.is.